Lægra gjald innheimt vegna dýraleifa

Kynningarfundur um sorpmál verður í mötuneyti Hrafnagilsskóla í kvöld.
Kynningarfundur um sorpmál verður í mötuneyti Hrafnagilsskóla í kvöld.

Gjaldskrá fyrir sorphirðu sem verið hefur til umfjöllunar í Eyjafjarðarsveit undanfarið er nú til umsagnar hjá ýmsum aðilum og kynningar, en umhverfisnefnd sveitarfélagsins samþykkti bókun á fundi sínum skömmu fyrir jól þar sem fram kemur að farið var yfir nýja tillögu að gjaldskrá.  Samkvæmt henni er gjald sem taka á fyrir búfjárleifar og er nýjung í gjaldskránni,  lægra en áður kom fram.

Umhverfisnefnd samþykkti gjaldskrána en fyrir liggur umsögn frá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar og var sveitarstjóra falið að leita eftir umsögnum frá Heilbrigðisnefnd og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.  Endanleg gjaldskrá verður ekki samþykkt í sveitarstjórn fyrr en eftir kynningarfund í kvöld, mánudaginn 9. janúar kl. 20.00,  í mötuneyti Hrafnagilsskóla. Á fundinum verður ný gjaldskrá og breytt fyrirkomulag sorphirðu kynnt fyrir íbúum.

Gjald fyrir eyðingu dýraleifa er lagt á heildarfjölda hverrar búfjártegundar samkvæmt búfjáreftirlitsskýrslu og er þannig að 300 krónur eru lagðar á hvern nautgrip, 50 krónur á sauðfé, 80 krónur fyrir hvert hross og 200 krónur fyrir hvern grís. Samkvæmt þeirri gjaldskrá sem fyrir liggur verður gjald sem innheimta á fyrir dýraleifar mun lægra en áður hefur verið nefnt. Þannig verður gjald fyrir þá sem eiga 101 nautgrip eða fleiri ríflega 30 þúsund krónur á ári, en ekki 145 þúsund krónur, um 8000 krónur fyrir þá sem eiga 101 hross eða fleiri, 12,500 krónur fyrir þá bændur sem eiga 251 kind eða fleiri og 300 þúsund fyrir þá sem eiga 1500 grísi eða fleira.

 

Nýjast