L-listinn býður fram í bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri næsta vor

L-listinn, listi fólksins, mun bjóða fram til bæjarstjórnarkosninga á Akureyri í  vor. L-listinn hefur átt fulltrúa í bæjarstjórn síðastliðin þrjú kjörtímabil eða frá árinu 1998. Á þeim tíma hefur hann sýnt að sú rödd sem hann stendur fyrir er nauðsynleg í bæjarstjórn, segir í fréttatilkynningu. L-listinn er engum háður og eini tilgangur hans er að gæta hagsmuna Akureyrar og íbúanna. Hann þarf ekki að verja flokkshagsmuni eða fara eftir dyntum „flokkseigendafélaga".   

L-listinn, listi fólksins, hefur þá sérstöðu í bæjarpólitíkinni að hann á uppruna sinn hjá fólkinu í bænum, hjá almenningi, sem vill láta til sín taka í nærumhverfinu. Hjá honum er það fólkið sem skapar stefnuna en tekur ekki við fyrirfram mótuðum hugmyndum og stefnu annarsstaðar frá. Það er fjöldi fólks sem hefur áhuga á stjórn bæjarfélagsins og fjöldi fólks sem hefur áhuga, skoðanir og lausnir, segir ennfremur í fréttatilkynningunni. Oddur Helgi Halldórsson hefur verið oddviti L-listans í bæjarstjórn Akureyrar frá upphafi.

Nýjast