L-listinn ætlar ekki í samstarf við Guðmund og Besta flokkinn

Geir Kristinn Aðalsteinsson oddviti L-listans.
Geir Kristinn Aðalsteinsson oddviti L-listans.

Fulltrúi frá L-listanum, lista fólksins á Akureyri, átti fund á dögunum með Guðmundi Steingrímssyni alþingismanni og fulltrúum Besta flokksins í Reykjavík en eins og fram hefur komið eru þessir aðilar að ræða hugsanlegt samstarf og framboð í næstu alþingiskosningum. Fulltrúi L-listans gerði í framhaldinu félögum sínum grein fyrir fundinum í Reykjavík en Geir Kristinn Aðalsteinsson oddviti L-listans, segir að L-listinn sem slíkur ætli ekki eða blanda sér í landsmálapólitíkina, hvorki með þessum aðilum eða öðrum.

Geir segist þó fagna því að Guðmundur og Besti flokkurinn séu að huga að framboði til Alþingis. Þessir aðilar séu að koma fram með nýja nálgun. Hann segir nauðsynlegt að rödd landsbyggðarinnar heyrist enn betur á Alþingi og vonandi að nýtt framboð taki tillit til þess. "Við ætlum hins vegar að halda áfram að vinna fyrir Akureyri og Akureyringa og höfum tilkynnt þessum aðilum það. Ef hins vegar einstaklingar innan L-listans, sem t.d. sitja í nefndum og ráðum á okkar vegum, vilja starfa með þeim í landsmálunum, munum ekki setja okkur upp á móti því," segir Geir.

Nýjast