Kýrin Systa gerir það gott

„Þetta er hörku mjólkurkýr,“ segir Guðmundur Steindórsson ráðunautur hjá Búgarði, en kýrin Systa frá Syðri-Bægisár í Hörgársveit er nú þriðja mánuðinn í röð afurðahæsta kýr landsins með 11.899 kíló í afurðum síðastliðna 12 mánuði. Systa er fædd árið 2006 og segir Guðmundur að hún sé ótrúlega mögnuð, dagsnyt fari iðulega um eða yfir 40 kíló og hæst hafi hún orðið 42 kíló yfir daginn.

Meðalafurðir í Hraunkoti í Skaftárhreppi reiknast enn hæstar fyrir landið að því er fram kemur í nýrri skýrslu Bændasamtakanna fyrir septembermánuð. Alls komu tæplega 600 bú til uppgjörs, fjöldi árskúa var rúmlega 22 þúsund eða tæplega 40 árskýr að jafnaði á hvern skýrsluhaldshafa en fjöldi árskúa hefur jafnt og þétt stigið upp á við frá því í sumar, þegar árskýr voru 36 talsins.

Nýjast