Magnús Þór Ásgeirsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar segir að tilgangur með Noregsförinni hafi verið að kynna Eyjafjörð sem tilvalinn stað til umskipunar stórra flutningaskipa. Unnið hafi verið að þessu máli töluverðan tíma en sem dæmi má nefna að á árinu 2005 var haldinn ráðstefna um þessi mál á Akureyri. Hann segir Dysnes ákjósanlegan stað fyrir slíka höfn, en þar sé undirlendi mikið og gott. "Það þarf að markaðssetja hugmyndina og kynna vel hvað við gætum boðið upp á í framtíðinni," segir Magnús. Hann bendir á að rannsóknir sýni að loftslagsbreytingar hafi orðið miklar á norðurskautssvæðinu á liðnum áratugum og loftslag fari ört hlýnandi. Bendi allt til að þróunin verði enn örari á næstu árum og ísinn bráðni hraðar enn menn héldu áður. "Þessi möguleiki getur opnast hvenær sem er, sennilega fyrr en menn gera sér grein fyrir. Þannig að nú er bara að spýta í lófana og halda grunnvinnu áfram af fullum krafti," segir hann.
Hörður segir að eftir Noregsferðina hafi menn styrkst í trúnni á að norður í Eyjafirði væri verið að vinna að raunhæfum markmiðum með uppbyggingu umskipunarhafnar, "við þurfum að nýta þau tækifæri sem gefast, þetta er vissulega ekki að gerast á morgun, þetta er hluti af langhlaupi, en við viljum vera tilbúin þegar tækifærið kemur," segir hann og kveðst þess fullviss að ótal tækifæri önnur muni fylgja í kjölfar þess að siglingaleiðin opnast í náinni framtíð. Nefnir hann sem dæmi að margvísleg verðmæti megi án efa finna þar, olía og fleira en einnig muni menn þyrsta í að rannsaka svæðið og þá gæti Eyjafjarðarsvæðið verið ákjósanlegt sem þjónustumiðstöð fyrir flokka vísindamanna.