Kynningarfundur um grænan orkusækinn iðnað á Bakka

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings. Mynd: Birgir Ísleifur/si.is
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings. Mynd: Birgir Ísleifur/si.is

Landsvirkjun og Samtök iðnaðarins efndu til opins fundar í Kaldalóni í Hörpu fyrir skemmstu sem var sendur út beint. Á fundinum var horft til framtíðar og leitast við að svara því hvort Ísland er reiðubúið að taka á móti nýjum grænum orkusæknum iðnaði líkt og stórum gróðurhúsum, ofurgagnaverum, rafeldsneytisvinnslum eða rafhlöðuverksmiðjum. Varpað var fram spurningum um hvort við höfum þá innviði sem þarf, hvernig tryggja eigi aðstöðuna, orkuna og samstarf fyrirtækja, ríkisvalds, sveitarstjóra og annarra sem málið snertir. Þetta kemur fram á vef Samtaka iðnaðarins.

Atvinnuuppbygging á grunni endurnýjanlegrar orku og sjálfbærni

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, sagði meðal annars í sínu erindi að verðmætasköpun þurfi að aukast til muna á næstu árum ef við ætlum að viðhalda lífsgæðum og byggja áfram framsækið, opið og öflugt samfélag. Það sé auðvelt að færa sannfærandi rök fyrir því að Ísland sé um margt land tækifæranna og það væri tækifæri fyrir Ísland til að verða á næsta áratug meðal fremstu þjóða heims hvað varðar atvinnuuppbyggingu á grunni endurnýjanlegrar orku og sjálfbærni. Hann sagðist vera í forsvari fyrir samfélag norður í landi sem hafi séð umtalsverðar breytingar á síðustu árum tengdar innviða- og atvinnuuppbyggingu í iðnaði sem byggi á skynsamlegri nýtingu orkuauðlinda í Þingeyjarsýslum. Eftir hægfara og um margt mjög sársaukfullt tímabil stöðnunar í atvinnulífi á svæðinu utan þess sem þó byggðist upp tengt ferðaþjónustu frá síðustu aldamótum, hafi trú fólks á framtíðina, trú fólks á samfélagið og atvinnulífið gerbreyst. Með tilkomu fyrsta iðnfyrirtækisins á Bakka við Húsavík hafi nú opnast enn fleiri tækifæri til að taka næstu skref á grunni orkusækins græns iðnaðar. Kristján Þór sagði frá grænum iðngörðum sem væru í sinni einföldustu mynd iðnaðarsvæði þar sem fyrirtæki eiga samstarf innbyrðis og við nærsamfélagið um að minnka úrgang og mengun, á hagkvæman hátt deila auðlindastraumum á borð við vatn, orku, innviði, upplýsingar, eða hráefni og þannig styðja sjálfbæra þróun með þó þann ásetning að auka efnahagslegan ávinning og bæta umhverfisleg gæði. Í niðurlagi erindis síns hvatti hann þá sem væru á fundinum til að vera sendiherra nýrra tíma og tala skýrt þegar komi að því hvert við stefnum. „Við eigum að sækja hin fjölbreyttu tækifæri sem til staðar eru á Íslandi í krafti endurnýjanlegrar orku og skýrrar stefnu um bætta nýtingu auðlindastrauma. Við eigum að vera djörf og ekki sætta okkur við að geta ekki keppt um mest spennandi atvinnutækifæri komandi kynslóða. Við verðum að tala skýrt fyrir viðhorfsbreytingu sem er nauðsynleg víða til að Ísland geti keppt um áhugaverð alþjóðleg fyrirtæki og lífsgæði framtíðar, m.a. með skynsamlegri og nauðsynlegri nýtingu sjálfbærra orkuauðlinda okkar.“

Á morgun, þriðjudaginn 6. júlí kl. 16:30 á Fosshótel Húsavík er komið að íbúafundi, þar sem verkefnið á Bakka verður kynnt og umræður teknar um tækifærin til frekari atvinnu- og verðmætasköpunar á grunni endurnýjanlegrar orku á forsendum hringrásarhagkerfis grænna iðngarða.

 


Athugasemdir

Nýjast