Kynning á Frisbígolfi að Hömrum á morgun
Frisbígolf (Folf) hefur náð miklum vinsældum bæði hér á landi og erlendis. Á Íslandi eru nú komnir sex sérbúnir folfvellir en þrír þeirra voru opnaðir á þessu ári og margir eru að kynnast þessari skemmtilegu afþreyingu þessa dagana.
Birgir Ómarsson formaður Íslenska frisbígolfsambandsins, segir að það viti það ekki margir en á Akureyri hefur verið skemmtilegur 9 holu völlur í nokkur ár en hann er staðsettur á tjaldsvæðinu að Hömrum.
Þessi völlur er með þeim skemmtilegri á landinu. Ekkert kostar að spila og hægt er að mæta með hefðbundna frisbídiska þó við mælum með sérstökum folfdiskum sem fljúga betur og eru nákvæmari en venjulegir frisbídiskar, segir Birgir.
Næsta laugardag á milli kl. 16-18 verður kynning á Folfi á vellinum að Hömrum og eru allir áhugasamir hvattir til að koma og prófa.