Kvikmyndasýning, spjall og spil, tónleikar og barnagaman í Hofi
Kvikmyndaklúbburinn KvikYndi stendur fyrir kvikmyndasýningu í samstarfi við Menningarhúsið Hof í kvöld, miðvikudagskvöldið 5. október kl. 20.00 í aðalsal Hofs, Hamraborg. Heimildarmyndin Jón og séra Jón eftir Steinþór Birgisson fékk frábærar viðtökur og var sýnd fyrir fullu húsi í Bíó Paradís og hlaut einnig áhorfendaverðlaun Skjaldborgar 2011.
Um myndina: Séra Jón Ísleifsson hefur verið sóknarprestur í Árnesi Ströndum í 12 ár. Hann lifir lífinu á sinn eigin sérstæða máta og af honum eru margar sögur bæði sannar og ósannar. Í kjölfar langvinnra deilna innan safnaðarins er svo komið að mikill meirihluti sóknarbarna hefur skrifað undir vantraust á séra Jón og lýst því yfir að þau vilji ekki að hann starfi lengur sem sóknarprestur í Árnesprestakalli. Er séra Jón óhæfur prestur? Eða eru aðrir kraftar að verki? Hvað sem því líður er séra Jón maður sem er staddur á miklum tímamótum. Jón og séra Jón er mynd sem beðið hefur verið eftir!
Páll Óskar og Jón Ólafsson eiga skemmtilegt spjall og spil á sviðinu í Hamraborg á morgun, fimmtudagskvöldið 6. október kl. 20:30. Margir muna eflaust eftir þáttum Jóns Ólafssonar, Af fingrum fram, sem voru á dagskrá RÚV í þrjá vetur en þættirnir nutu fádæma vinsælda. Síðastliðna vetur hefur Jón boðið til sín góðum gestum á sviðið í Salnum í Kópavogi við fádæma undirtektir. Nú kemur hann loks í Hof og gestur hans að þessu sinni verður Páll Óskar. Gestir eru hvattir til þess að tryggja sér miða sem fyrst á þessa einlægu kvöldstund í Hofi.
Greifarnir sem hafa verið ein allra ástsælasta hljómsveit landsins frá árinu 1986 fagna 25 ára starfsafmæli með tónleikum í Hofi þann 8. október kl. 20. Jafnframt eru þessir tónleikar útgáfutónleikar í tilefni þriggja diska útgáfu GREIFARNIR, fyrstu 25 árin" sem er safn 40 bestu laga Greifanna og tónlistarmyndbanda. Á efnisskrá tónleikana verða flest vinsælustu lög Greifana og einnig nokkur sem ekki eru jafn þekkt en í sérstöku uppáhaldi hjá drengjunum sjálfum. Felix Bergson sem var fyrsti forsöngvari Greifana mun svo mæta aftur eftir langa fjarveru og taka nokkur lög með sínum gömlu félögum. Felix tók lagið með Greifunum á Mærudögum á Húsavík í sumar við frábærar undirtektir þeirra sem heyrðu og sáu. Stórsöngvarinn Óskar Pétursson verður einnig gestur þetta kvöld og mun sveipa tónlist Greifanna klassískum blæ. Gulli Helga útvarps- og sjónvarpsmaðurinn góðkunni verður sérstakur kynnir og sögumaður á tónleikunum. Hann mun grípa niður hér og þar í sögu Greifanna með aðstoð gamalla myndbanda og ljósmynda og varpa skemmtilegu ljósi á ýmislegt í langri sögu sveitarinnar. Gulli var einmitt kynnir á Músíktilraunum þegar Greifarnir sigruðu árið 1986.
Þá verður skemmtileg morgunstund í Hofi sunnudaginn 09. október kl. 12:00-14:00 fyrir yngstu kynslóðina. Brynhildur Kristinsdóttir myndlistarkona tekur á móti börnunum og leiðir þau í listsköpun. Allir velkomnir og enginn aðgangseyrir.