Kvenleiki og mýkt mikilvæg í tónlistinni

Á morgun föstudag kemur formlega út hljómplatan „Bleed’n Blend” eftir tónlistarkonuna Fanneyju Kristjánsdóttur en þetta er önnur sólóplata hennar.  

Fanney sem syngur og semur undir listamannsnafninu Kjass segir að tilgangur plötunnar sé að gefa fólki kraft og von til að halda áfram með lífið eftir erfiðleika, áföll og ofbeldi. 

„Kjass er að gera gott fyrir aðra. Tónlist er svo huggandi. Markmiðið mitt er að skapa tónlist sem er eins og eins og stórt faðmlag sem kemur þegar við þurfum mest á því að halda. Það er alveg sama hvað við erum að fara í gegnum erfiða hluti, það er alltaf einhver sem skilur okkur og getur stutt okkur í gegnum það,” segir Fanney.

Fyrsta plata Kjass „Rætur” hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata í opnum flokki árið 2018 nú kveður við nýjan litríkan tón í tónlistinni sem tekur snarpa beygju í átt að poppi og rokki. Fanney hefur mjúkan og skemmtilegan tón í röddinni sinni en aðspurð segist hún alltaf hafa hrifist af Emilíönu Torrini og Norah Jones og þau áhrif megi heyra á nýju plötunni, svo læðist Pearl Jam líka bakdyramegin inn í tónlistina á skemmtilegan hátt. 

Skiptir máli að konur tjái sig á sinn hátt

Fanney lærði djasssöng í FÍH og útskrifaðist úr kennaradeild Tónlistarskóla FÍH árið 2016 og segir að námið hafi verið mikill stuðningur. „Ég gerði mér grein fyrir því í náminu að ég gæti gert þetta allt saman sjálf. Þar fékk ég tæki og tól til að gera mín eigin lög og það var mjög valdeflandi. Það skiptir mig máli að konur tjái sig á sinn hátt. Það er svo mikill munur á því að vera með sitt eigið verkefni sem kona í staðinn fyrir að ganga inn í eitthvað karllægt form. Ég er ótrúlega þakklát fyrir hvað ég hef getað gefið mér góðan tíma og unnið þetta verkefni algjörlega á mínum forsendum. Að skapa tónlist alveg út frá sér, sínum reynsluheimi og kvenleikanum í víðustu merkingu þess orðs er virkilega dýrmætt”.

Hlakkar til að halda tvenna útgáfutónleika

Fanney er ánægð með hópinn sem hún fékk í þetta verkefni með sér en þau Mikael Máni Ásmundsson og Anna Gréta hafa spilað með Kjass frá upphafi. Þau búa bæði yfir einstökum tón og spunakrafti sem gefur tónlistinni einstaka dýpt. Rodrigo Lopes spilar á trommur og litar tónlistina skemmtilega með suðrænum blæ frá Brasilíu. Stefán Gunnarsson límir síðan allt saman með mjúkum, þéttum og látlausum bassaleik. Tómas Jónsson spilar á Hammond í tveimur lögum sem gefur þeim aukinn kraft, Ásdís Arnardóttir heldur utan um hljóðmyndina með undurfögrum sellóleik og Daníel Starrason spilar á gítar í lokalagi plötunnar. 

„Það sem kom á óvart í ferlinu er hvað við náðum að komast á djúpt plan tilfinningalega. Þannig skapaðist eitthvað sem er miklu stærra og dýpra en ég hefði getað gert mér í hugarlund. Ég er mjög ánægð með þennan hóp. Þau virkilega gáfu hjarta sitt í þetta verkefni og ég hlakka mikið til að deila því með heiminum í lifandi flutningi,” útskýrir Fanney.

Platan „Bleed n’ blend” kemur út á morgun 12. ágúst og útgáfutónleikarnir verða haldnir í Mengi laugardagskvöldið 27. ágúst og á Græna Hattinum 25. Ágúst.

Hægt er að kaupa miða fyrirfram á vefsíðum tónleikastaðanna og nánari upplýsingar má einnig finna á facebook síðu Fanneyjar.

 


Athugasemdir

Nýjast