Krókódílar Húsvíkinga og kvikindið hann Guðni Ágústsson

Guðni Ágústsson í ræðustól á Húsavík 1. maí.  Mynd: JS
Guðni Ágústsson í ræðustól á Húsavík 1. maí. Mynd: JS

Frumlegar hugmyndir Húsvíkinga um krókódílaeldi í tjörnum sunnan bæjarins, voru snarlega skotnar niður af þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústssyni sem taldi glórulaust að flytja  inn dýr sem hann nefndi flatkjafta.

Guðni vék að málinu  löngu síðar í 1. maí ræðu á Húsavík og sagði: „Þegar ég var landbúnaðarráðherra stóð til að rækta krókódíla hér á Húsavík, kjöt og leður sögðu fræðingarnir. Ég hafnaði fyrirhuguðu krókódílaeldi ykkar Húsvíkinga, en  ekki af skepnuskap einum saman. Því ég komst að raun um að krókódílar eru stórhættuleg kvikindi sem  geta hlaupið á sextíu kílómetra hraða og étið Húsvíkinga.”

Hákon Aðalsteinsson orti eftirfarandi vísu, sem Guðni taldi sjálfur eina mestu viðurkenningu sem honum hefði hlotnast á farsælum ráðherraferli:

 

Húsvíkingar sitja nú í sárum,

sviptir eru góðri tekjuvon.

Grætur köldum krókódílatárum,

kvikindið hann Guðni Ágústsson. JS


Athugasemdir

Nýjast