Kristján Þór stýrir Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ákveðið að koma á fót sérstakri nefnd í Evrópumálum sem á að skoða breytta afstöðu til Evrópumála. Formaður nefndarinnar verður Kristján Þór Júlíusson fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og forseti bæjarstjórnar Akureyrar. Nefndin á að skoða stöðu íslands gagnvart Evrópusambandinu, ríkjum Evrópu og valkostum Íslands í alþjóðasamstarfi.  

Þetta var niðurstaðan á sérstökum fundi þingflokks og miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins í dag. Einnig var ákveðið að flýta landsfundi flokksins fram til loka janúar en hann er undir venjulegum kringumstæðum haldinn í október. Evrópunefndin á að ljúka störfum fyrir landsfund. Þá verða settir á fót vinnuhópar sem skoða einstaka málaflokka svo sem auðlindamál hagsmuni atvinnuveganna, þjóðskipunarmál, utanríkis- og öryggismál, peningamálastjórn og framtíðar gjaldmiðil.

Nýjast