Kristján Þór hefur áhyggjur af atvinnustiginu

"Auðvitað finn ég fyrir mikilli reiði fólks, það eru allir reiðir yfir því hvernig fyrir okkur er komið og ég skil það vel, sjálfur er ég mjög leiður yfir þessu," segir Kristján Þór Júlíusson alþingismaður um ástand mála hér á landi í kjölfar bankahrunsins.  "Þetta snertir alla landsmenn með einhverjum hætti."  

Kristján Þór kveðst hafa áhyggjur af því að ekki verði hægt að halda uppi viðunandi atvinnustigi í landinu á næstu mánuðum.  "Áhyggjur mínar beinast fyrst og fremst að því að því hvort unnt verði að halda hjólum atvinnulífsins gangandi, að fólk hafi lifibrauð og að það geti staðið við skuldbindingar sínar," segir Kristján Þór. Hann segir marga, einstaklinga og forsvarsmenn fyrirtækja vera í sambandi við þingmenn og lýsa yfir áhyggjum sínum og þeim deili hann með fólkinu. 

Margir krefjast þess að efnt verði til kosninga nú í kjölfar hrunsins en Kristján Þór telur glapræði að efna til kosninga á þessum tíma og skapa með því pólitíska upplausn og óreiðu á viðkvæmum tíma.  "Við vinnum við það hörðum höndum að koma böndum á ástandið.  Það er skylda núverandi stjórnarflokka að halda þessu starfi áfram og við erum samstíga í að vinna okkur út úr þessu erfiðleikum. Allt tal um kosningar nú er ábyrgðarlaust," segir Kristján Þór.

Nýjast