Kristján Þór gefur kost á sér til embættis formanns Sjálfstæðisflokksins

Kristján Þór Júlíusson alþingismaður hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns á landsfundi flokksins um næstu helgi. Hann tilkynnti þetta á blaðamannafundi í útsýnispallinum í Vaðlaheiði nú rétt í þessu. Áður hafði Bjarni Benediktsson alþingismaður gefið kost á sér til embættis formanns.  

Kristján Þór sagði m.a. á blaðamannafundinum að hann hefði sl. 25 ár, eða þar til hann tók sæti á Alþingi fyrir tveimur árum, helgað starfskrafta sína uppbyggingu sveitarfélaga og atvinnulífs á landsbyggðinni. "Í því starfi skipti miklu að hafa trú á möguleikum hennar til að búa íbúum góð lífsskilyrði. Ég tel að áratuga reynsla mín af því uppbyggingarstarfi, oft við erfiðar aðstæður, með íbúum og atvinnulífi, með fulltrúum annarra flokka, sé það sem íslensk þjóð og þar með Sjálfstæðisflokkurinn þurfi á að halda í dag."

Kristján Þór sagðist aldrei hafa fengið pólitískan frama eða völd á silfurfati en að sér hafi ávallt verið treyst fyrir ábyrgð og að hann hafi lagt sig fram um að standa undir henni. "Stjórnmálamenn hafa undanfarna mánuði orðið fyrir mikilli og réttmætri gagnrýni almennings og vantraust hefur grafið um sig í þjóðfélaginu. Í kjölfarið hefur komið fram eðlileg krafa um ábyrgð og endurnýjun. Sjálfstæðisflokkurinn verður, eins og aðrir að læra af því sem aflaga fór og endurheimta það traust sem hann hefur ávallt notið hjá þjóðinni. Það mikla verkefni verður forysta Sjálfstæðisflokksins að leysa af auðmýkt og með hagsmuni allra stétta í huga," sagði Kristján Þór.

Hann bauð sig fram til embættis varaformanns á síðasta landsfundi flokksins en tapaði þá fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Þorgerður gefur áfram kost á sér sem varaformaður á landsfundinum um næstu helgi.

Nýjast