Kristinn og Víkingur Heiðar með tónleika í Hofi

Kristinn Sigmundsson og Víkingur Heiðar Ólafsson fytja einn áhrifamesta ljóðasöngbálk sögunnar í Hof…
Kristinn Sigmundsson og Víkingur Heiðar Ólafsson fytja einn áhrifamesta ljóðasöngbálk sögunnar í Hofi.

Tveir af fremstu listamönnum þjóðarinnar, bassasöngvarinn Kristinn Sigmundsson og pínaóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson, halda tónleika í Hofi í dag, laugardaginn 3. desember kl 15.00. Þar flytja þeir ljóðabálkinn Vetrarferðina eftir Franz Schubert en verkið samdi hann árið 1827, ári fyrir andlát sitt. Víkingur segir að þetta verk sé einn stærsti ljóðasöngbálkur sögunnar og að margra mati einn sá áhrifamesti.

“Kristinn hefur sungið þetta verk í 30 ár og þetta er verk sem hann hefur vaxið með og verkið vaxið með honum. Ég er í raun að koma að þessu verki í fyrsta sinn á þessu ári en við vorum með tónleika í Hörpu í júní, sem voru mjög skemmtilegir. Í framhaldinu var svo ákveðið að vera með þessa tónleika í Hofi og taka svo verkið upp í þessum mánuði og gefa út á geisladiski. Það verður okkar fyrsti diskur saman,” sagði Víkingur.

Hann segir að Kristinn sé á hátindi ferils síns og hafi reyndar verið það sl. 10 ár. Í Vetrarferðinni eru 24 lög og tekur verkið um klukkutíma í flutningi. “Umfjöllunarefnið er um einsemd mannsins, um mann sem tekst á við ástarsorg og heldur út í náttúruna í vetrarferð. Þetta er gríðarlega stórt listaverk og það eru miklar víddir í því. Verkið er mjög áhrifamikið þegar maður heyrir það í held og er þannig að það er eiginlega ekki hægt að rjúfa heildina. Ef maður byrjar á fyrsta laginu verður að ljúka því síðasta,” sagði Víkingur.

Troðfullt var á tónleikum Kristins og Víkings Heiðars í Hörpu í sumar og fékk flutningur þeirra mjög góða dóma. “Þetta var mjög stór stund fyrir mig að fá að standa á sviðinu með Kristni og í þessu verki. Stóri salurinn hentaði mjög vel og ég hef aldrei spilað á tónleikum í jafn rafmögnuðu andrúmslofti,” sagði Víkingur.

 

Nýjast