Kristinn hættir sem framkvæmdastjóri íþróttadeildar
Kristinn hefur verið framkvæmdastjóri íþróttadeildar í á tíunda ár og hann segir að þessi tími hafi verið góður og að það hafi verið einstaklega ánægjulegt að fá að taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað á Akureyri á þessum tæpa áratug. "Það hefur verið mikill uppgangur hér á þessum tíma og þessa vegna geng ég afar ánægður frá borði. Sú reynsla og þekking sem ég hef verið svo heppinn að ávinna mér við störf mín fyrir Akureyrarbæ ásamt vinnu með góðu fólki er mér dýrmæt og þetta starf hefur gefið mér mikið."
Kristinn segir að Akureyringar geti verið mjög stoltir yfir því þjónustustigi sem boðið er upp á þessum málaflokki. "Þeir sem hafa verið í forystu í bæjarmálunum hafa tekið stundum djarfar en góðar ákvarðanir varðandi það að byggja hér upp. Mitt mat er að það þjónustustig sem hér er boðið upp á, í þessu tæplega 18.000 manna samfélagi, sé nálægt því að vera heimsmet. Hins vegar búum við það að vera stanslaust borin saman við höfuðborgarsvæðið, þegar við erum í samkeppni um íbúa. Fólk horfir m.a. á það að hvað er í boði þegar það er að velja sér búsetu."
Kristinn segir að Akureyrarbær reki skíðasvæðið í Hlíðarfjalli eitt og sér en á höfuðborgarsvæðinu sameinist ein níu sveitarfélög um að reka skíðasvæðin þar. Lengi vel var eitt knattspyrnuhús á höfuðborgarsvæðinu og annað slíkt hús á Akureyri. Þá séu tvær skautahallir í Reykjavík og ein hér.
Uppbyggingin að skila sér
"Auðvitað velta eflaust einhverjir því fyrir sér hvort eðlilegt hafi verið að leggja svona háar fjárhæðir í uppbyggingu þessa málaflokks á undanförnum árum og er það mjög eðlilegt. Ég tel hinsvegar að uppbyggingin sé að skila okkur bættu samfélagi með öflugra íþrótta- og forvarnarstarfi. Þá má ekki gleyma öllum þeim viðburðum á vegum íþróttafélaganna sem fara fram í glæsilegum íþróttamannvirkjum okkar Akureyringa sem leiða til verðmætasköpunar í bænum. Hlíðarfjall og Sundlaug Akureyrar eru svo annað dæmi um þjónustu fyrir ferðamenn og óhætt að segja að starfsemi þeirra hafi skapað bæði atvinnu og verulegar tekjur fyrir okkar litla hagkefi á Akureyri. Ég tel mig hafa verið lánsamann að hafa fengið það tækifæri að vinna fyrir sveitafélagið mitt á undanförnum árum og þannig fengið tækifæri til að hjálpa til við mótun þess og vil þakka öllu því góða fólki sem ég hef unnið með fyrir gott samstarf," sagði Kristinn.