Hönnunarfyrirtækið FærID afhenti Krabbameinsfélaginu nýlega framlag vegna sölu á Gott fyrir Gott, slaufunammi til stuðnings Bleiku slaufunni. Um er að ræða verkefni sem hófst fyrir haustið 2010, en Gott fyrir Gott var selt í 15 g og 100 g pokum um land allt og var allur ágóði til styrktar Krabbameinsfélaginu. Það eru Herborg Harpa Ingvarsdóttir og Þórunn Hannesdóttir sem standa á baki verkefninu og var markmið þeirra að víkka markhóp bleiku slaufunnar og vinna hugmynd þar sem Bleika slaufan væri fyrir alla. Þær afhentu nýverið Krabbameinsfélaginu framlag að upphæð einni milljón króna.
Það var einstaklega gaman að vinna þetta verkefni með FærID. Þetta er skemmtileg hugmynd og sýnir hversu mikil gróska er í íslenskri hönnun. Herborg og Þórunn eru sérlega hugmyndaríkar og kraftmiklar og það hefur verið mjög gefandi að vinna með þeim, sagði Ragnheiður Haraldsdóttir forstjóri Krabbameinsfélagsins þegar hún tók við framlaginu. Herborg og Þórunn eru afar þakklátar fyrir þau viðbrögð sem þær hafa fengið við verkefninu. Við erum búnar að eiga gott samstarf við Nóa Siríus og alla söluaðila Gottsins sem allir voru virkir þátttakendur í verkefninu með því að selja Gottið án álagningar segir Herborg.
Þórunn vill einnig koma á framfæri þakklæti til annara sem hafa komið að verkefninu: Það er að mörgu að hyggja þegar vara sem þessi er sett á markað og við höfum því leitað til margra fyrirtækja okkur til aðstoðar sem hafa tekið okkur og verkefninu afar vel segir Þórunn í fréttatilkynningu.
Á myndinni eru f.v., Laila Sæunn Pétursdóttir markaðs- og fjáröflunarstjóri Krabbameinsfélagsins, Herborg Harpa Ingvarsdóttir og Þórunn Hannesdóttir hjá FærID og Ragnheiður Haraldsdóttir forstjóri Krabbameinsfélagsins.