KR bikarmeistari

KR-ingar tryggðu sér rétt í þessu sigur í Valitor-bikarkeppni KSÍ eftir 2:0 sigur gegn Þór í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli í dag. Norðanmenn voru betra liðið á vellinum og áttu frábæran fyrri hálfleik, en urðu fyrir miklu áfalli rétt fyrir hálfleik er Gunnar Már Guðmundsson skallaði boltann í eigið net. Markið kom þvert gegn gangi leiksins og á versta tíma fyrir Þór. Það var svo Baldur Sigurðsson sem gerði út um leikinn fyrir KR þegar níu mínútur voru til leiksloka og það manni færri, en Skúli Jón Friðgeirsson fékk að líta rauða spjaldið þegar um tuttugu mínútur voru eftir. Þetta var tólfti sigur KR í bikarkeppninni en Þórsarar voru að leika í fyrsta sinn í úrslitum og ekki hægt að segja annað en þeir hafi fengið að finna fyrir grimmd knattspyrnunnar í dag.

Leikurinn byrjaði fjörlega og bæði lið fengu ágætisfæri á upphafsmínútunum. Fyrst fékk Ármann Pétur Ævarsson fínt færi er boltinn datt fyrir fætur hans í teignum en Ármann þurfti að teygja sig í boltann og skotið slakt. Í næstu sókn var svo Kjartan Henry Finnbogasson nálægt því að koma KR yfir en skalli hans fór rétt yfir markið. Leikurinn róaðist eftir þetta þar sem KR-ingar stjórnuðu leiknumJanez Vrenko var hins vegar hársbreidd frá því að koma Þór yfir eftir sextán mínútna leik er hann skallaði boltann í þverslána eftir frábæra sendingu frá Atla Sigurjónssyni úr aukaspyrnu. Sannkallað dauðafæri og norðanmenn óheppnir að ná ekki forystunni.

Þórsarar tóku við sér eftir þetta og sóttu í sig veðrið.Norðanmenn voru svo aftur nálægt því að komast yfir á 26. mínútu. Sveinn Elías Jónsson fékk þá boltann við hægra vítateigshornið, lék inn á miðjuna og skaut boltanum í þverslána. Skömmu síðar fékk Gunnar Már Guðmundsson dauðafæri en skotið var slakt og yfir markið. KR-ingar stálheppnir að vera ekki marki undir og norðanmenn að ná yfirhöndinni í leiknum.

Það voru hins vegar KR-ingar sem náðu forystunni á 44. mínútu og það með hjálp Þórsara. Gunnar Már Guðmundsson skallaði boltann í eigið net eftir að Magnús Már Lúðvíksson hafði komið boltanum fyrir mark norðanmanna. Markið kom á versta tíma fyrir Þór og eins og ísköld vatnsgusa í andlitið.

Staðan 0:1 í hálfleik.

Þórsarar voru nálægt því að jafan leikinn í upphafi síðari hálfleiks er Sveinn Elías Jónsson slapp einn í gegn en skaut í slána. Tréverkið því enn og aftur að bjarga KR. Jóhann Helgi Hannesson fékk svo dauðafæri á 66. mínútu er hann átti skot í slána úr vítateignum eftir sendingu frá Gísla Páli Helgasyni. Jóhann tók boltann á lofti en Hannes Þór Halldórsson í marki KR varði vel. KR-ingar urðu fyrir áfalli á 69. mínútu er Skúli Jón Friðgeirsson fékk að líta rauða spjaldið eftir brot á Atla Sigurjónssyni. Vesturbæingar virtust eflast við þetta og Guðjón Baldvinsson var nálægt því að koma KR í 2:0 skömmu síðar en skalli hans fór rétt framhjá markinu. Á 75. mínútu kom svo enn eitt sláarskot Þórsara. Ingi Freyr Hilmarsson var þá kominn í ákjósanlegt færi en enn aftur var tréverkið fyrir norðanmönnum. Hreint ótrúlegt.

Það var svo á 82. mínútu sem KR-ingar gerðu nánast út um leikinn. Vesturbæingar áttu langt innkast inn á vítateiginn þar sem boltinn barst að endingu til Baldurs Sigurðssonar sem skoraðio af stuttu færi. Staðan 2:0 fyrir KR og það reyndust lokatölur leiksins.

Nýjast