KR bikarmeistari
Leikurinn byrjaði fjörlega og bæði lið fengu ágætisfæri á upphafsmínútunum. Fyrst fékk Ármann Pétur Ævarsson fínt færi er boltinn datt fyrir fætur hans í teignum en Ármann þurfti að teygja sig í boltann og skotið slakt. Í næstu sókn var svo Kjartan Henry Finnbogasson nálægt því að koma KR yfir en skalli hans fór rétt yfir markið. Leikurinn róaðist eftir þetta þar sem KR-ingar stjórnuðu leiknumJanez Vrenko var hins vegar hársbreidd frá því að koma Þór yfir eftir sextán mínútna leik er hann skallaði boltann í þverslána eftir frábæra sendingu frá Atla Sigurjónssyni úr aukaspyrnu. Sannkallað dauðafæri og norðanmenn óheppnir að ná ekki forystunni.
Þórsarar tóku við sér eftir þetta og sóttu í sig veðrið.Norðanmenn voru svo aftur nálægt því að komast yfir á 26. mínútu. Sveinn Elías Jónsson fékk þá boltann við hægra vítateigshornið, lék inn á miðjuna og skaut boltanum í þverslána. Skömmu síðar fékk Gunnar Már Guðmundsson dauðafæri en skotið var slakt og yfir markið. KR-ingar stálheppnir að vera ekki marki undir og norðanmenn að ná yfirhöndinni í leiknum.
Það voru hins vegar KR-ingar sem náðu forystunni á 44. mínútu og það með hjálp Þórsara. Gunnar Már Guðmundsson skallaði boltann í eigið net eftir að Magnús Már Lúðvíksson hafði komið boltanum fyrir mark norðanmanna. Markið kom á versta tíma fyrir Þór og eins og ísköld vatnsgusa í andlitið.
Staðan 0:1 í hálfleik.
Þórsarar voru nálægt því að jafan leikinn í upphafi síðari hálfleiks er Sveinn Elías Jónsson slapp einn í gegn en skaut í slána. Tréverkið því enn og aftur að bjarga KR. Jóhann Helgi Hannesson fékk svo dauðafæri á 66. mínútu er hann átti skot í slána úr vítateignum eftir sendingu frá Gísla Páli Helgasyni. Jóhann tók boltann á lofti en Hannes Þór Halldórsson í marki KR varði vel. KR-ingar urðu fyrir áfalli á 69. mínútu er Skúli Jón Friðgeirsson fékk að líta rauða spjaldið eftir brot á Atla Sigurjónssyni. Vesturbæingar virtust eflast við þetta og Guðjón Baldvinsson var nálægt því að koma KR í 2:0 skömmu síðar en skalli hans fór rétt framhjá markinu. Á 75. mínútu kom svo enn eitt sláarskot Þórsara. Ingi Freyr Hilmarsson var þá kominn í ákjósanlegt færi en enn aftur var tréverkið fyrir norðanmönnum. Hreint ótrúlegt.
Það var svo á 82. mínútu sem KR-ingar gerðu nánast út um leikinn. Vesturbæingar áttu langt innkast inn á vítateiginn þar sem boltinn barst að endingu til Baldurs Sigurðssonar sem skoraðio af stuttu færi. Staðan 2:0 fyrir KR og það reyndust lokatölur leiksins.