Kostnaður við endurbætur á Listasafninu á Akureyri stefnir í 700 milljónir en áætlað hafði verið að heildarkostnaðurinn yrði rúmar
576 milljónir þegar gengið var til samninga við verktaka í sumar. Bæjaryfirvöld á Akureyri sömdu við ÁK smíði um framkvæmdir við endurbætur á Listasafninu.
Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrar er fyrirliggjandi fjárhagsáætlun fyrir árin 2018-2021 gagnrýnd, m.a. að tillögur meirihlutans um fjárveitingar til einstakra verkefna undanfarin ár hafa ekki gengið eftir.
„Má þar nefna að kostnaður við Listasafnið stefnir í 700 milljónir með búnaði en ekki 400-500 milljónir, kostnaður við framkvæmdir í Sundlaug Akureyrar stefnir í yfir 400 milljónir en við töldum rétt á sínum tíma að miða við þá áætlun sem lá fyrir eða 385 milljónir en ekki 285 eins og samþykkt var. Framkvæmdir við lóð Naustaskóla verða ekki undir 100 milljónum eins og við bentum alltaf á en ekki 60 milljónir eins og áætlað var,“ segir m.a. í bókuninni.
Mun hærri rekstrarkostnaður Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrar, segir málið byggjast á pólitík. „Mér finnst
þetta gagnrýnisvert og t.a.m. er kostnaður við endurbætur á Listasafninu komin verulega fram úr áætlun. Þetta mun verða til þess að leigukostnaður á Listasafninu verður um 70 milljónir á ári en ekki 40 milljónir. Það hlýtur að leiða til þess að taka verður fyrirliggjandi rekstraráætlun upp og endurvinna,“ segir Gunnar.
Áætlað er að framkvæmdum við Listasafnið ljúki þann 1. júní 2018.