Kostnaður vegna upphitunar og lýsingar á sparkvöllum um 2,2 milljónir króna á ári

Samkvæmt úttekt skóladeildar á kostnaði við upphitun á sparkvöllum við grunnskóla Akureyrar má áætla að kostnaðurinn sé um 230.000 kr. vegna hvers sparkvallar á ári. Þar sem sparkvellirnir eru sex talsins er kostnaður við upphitun þeirra allra um 1.380.000 kr. á ári. Áætlaður kostnaður vegna lýsingar á hverjum sparkvelli er um 135.000 kr. á ári. Því er kostnaður vegna lýsingar á öllum völlunum um 810.000 kr. á ári.  

Samtals er því áætlaður heildarkostnaður vegna upphitunar og lýsingar á sparkvöllum við grunnskóla Akureyrar um 2,2 milljónir króna á ári.  Í upphaflegri fjárhagsáætlun Akureyrar fyrir árið 2009 var gert ráð fyrir kostnaði vegna upphitunar og lýsingar á sparkvöllunum  að upphæð 5 milljónir króna. Þessi áætlun er töluvert hærri en úttektin segir til um og skýrist það af því að þegar fyrsti völlurinn var tekinn í notkun var gerð sambærileg úttekt sem gaf upplýsingar um kostnað sem nam um 5 milljónum króna á sex velli. Ljóst er að með betri stýringu á vatni og lýsingu hefur kostnaðurinn lækkað verulega. Þrátt fyrri þetta er ljóst að það er búið að lækka kostnað hjá grunnskólum og íþróttadeild um þessar 5 milljónir króna á núverandi fjárhagsári og því eru ekki til staðar fjármunir til að reka vellina það sem eftir lifir árs, segir í samantekt skóladeildar.

Nýjast