Gunnar Gíslason skólafulltrúi Akureyrarbæjar segir að samantekt hafi leitt í ljós að þessi kostnaður geti numið á bilinu frá 8 og upp í 15 þúsund að jafnaði. Kaupi foreldrar að auki fremur dýra skólatösku handa barni sínu geti kostnaðurinn orðið um 20 þúsund. „Þessi kostnaður er miðaður við að allt sem á innkaupalistanum er sé keypt, t.d. orðabækur og fleira. Við ræddum á þessum fundi um hvort ástæða væri til að hafa innkaupalistana svo ítarlega, hvort einhverju mætti sleppa og þá viljum við hvetja fólk til að athuga áður en farið er af stað í innkaupin hvort eitthvað af því sem á listanum er sé ekki til heima við. Það er ekki nauðsynlegt að allir hlutir sem skólarnir óska eftir að börnin hafa tiltæka séu nýir," segir Gunnar.
Óskaði skólanefnd eftir því að skólastjórar taki málið upp í skólum sínum og leiti leiða til að lækka þann kostnað sem foreldrar bera. „Þeir tóku þessu vel og munu taka umræðuna upp, hver í sínum skóla, það verður leitast við eftir því sem kostur er að draga úr útgjöldum foreldranna hvað þessi innkaup á haustin varðar," segir Gunnar.