Kostnaðarsamt og flókið að láta strætó ganga á flugvöllinn

Fáir samgöngumátar aðrir en leigubílar eru í boði frá Akureyrarflugvelli. Mynd: Hörður Geirsson.
Fáir samgöngumátar aðrir en leigubílar eru í boði frá Akureyrarflugvelli. Mynd: Hörður Geirsson.

Kostnaðarsamt og flókið getur verið að bjóða upp á strætóferðir til og frá Akureyrarflugvelli að mati bæjarfulltrúa sem Vikudagur ræddi við. Þó sé vert að skoða alla möguleika. 

Eins og greint var frá á vefsíðu Vikudags fyrr í vikunni hefur Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, ritað bréf til bæjaryfirvalda á Akureyri þar sem hann fyrir hönd flugfélagsins hvetur bæinn til að bjóða upp á strætóferðir til og frá Akureyrarflugvelli. Í bréfinu eru samgöngur þar á milli gagnrýndar og þeim sagt ábótavant eins og staðan sé í dag.

Samgöngur fyrir ferðafólk frá Akureyrarflugvelli hafa oft verið ræddar og margir talað fyrir úrbótum í málinu. 

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir að skoða þurfi alla möguleika.

„Það er ljóst að þetta er kostnaðarsamt og því þurfum við að sjá hvaða leiðir séu í boði. Ferðamannastraumurinn er að aukast og því eðlilegt að velta fyrir sér hvort forsendur hafi breyst. Á sínum tíma þótti þetta ekki raunhæft. Núna eru menn að velta fyrir sér hvort hægt sé að hafa strætisvagn sem keyrir með­ fram strandlengjunni, frá Byko að Kjarnaskógi. Við munum koma til með að velta þessu upp og hvað þetta kosti. Hins vegar er mjög erfitt ef við ætlum að blanda þessu inn í aðrar leiðir og láta strætóinn taka aukakrók á flugvöllinn,“ segir Guðmundur.

Bæjarráð beitir sér fyrir vanköntum í samgöngum

 

Í bréfi forvarsmanna Air Iceland Connect til Akureyrarbæjar segir m.a.: „Fyrir flugfarþega er mikilvægt að góðir samgöngumöguleikar séu í boði
til og frá flugvelli enda í fæstu tilfellum lokaáfangastaður farþega flugvöllurinn sjálfur. Á Akureyrarflugvelli er þessum möguleikum verulega ábótavant. Engin leið SVA fer á Akureyrarflugvöll þrátt fyrir að leiðakerfið sé töluvert umfangsmikið og nái til flestra staða bæjarfélagsins. Við hjá Air Iceland Connect viljum hvetja bæjarráð til þess að beita sér fyrir því að úr þessum vanköntum á samgöngum við Akureyrarflugvöll verði bætt hið fyrsta.“

Snýst um forgangsröðun

 

Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi Vg, segir málið flókið. „Mér hefur alltaf þótt þetta spennandi möguleiki, en ef við ætlum að hafa þetta inn í almenna leiðakerfinu, ætlum við þá að leggja þennan aukahring á aðra far­þega? Við þurfum að hugsa út í það. Ef við ætlum hins vegar að hafa sérstakan vagn þarna á milli, sem ég held að væri betri möguleiki, þá er spurning hvort við viljum forgangsraða þannig inni í strætókerfinu. Það er ýmislegt annað sem þarf að bæta í leiðakerfinu, t.d. myndi aukastrætó stórbæta þjónustuna. Þetta er því flókið mál og ég get ekki alveg sagt á þessari stundu hvort þetta sé heppilegt eða ekki,“ segir Sóley. „Ég hef alltaf talað fyrir bættum samgöngum og þar með þessari tengingu á flugvöllinn en það eru aðrir hlutir í kerfinu sem þyrfti kannski að skoða fyrst með það fyrir augum að bæta það.“

Samþætta þarf samgöngumáta

 

Edward Huijbens, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála á Akureyri, hefur lengi barist fyrir bættum samgöngum frá flugvellinum. Hann segir aðalatriðið að ólíkir samgöngumátar séu tengdir saman. „Þannig að fólk geti farið úr einum máta í annan og skipulagt ferðina um landið án þess að vera strand einhvers staðar. Mér finnst að bæjaryfirvöld verði að bregðast við þessu með jákvæðum hætti. Þó að það væri ekki nema rétt yfir sumarið til að byrja með og fara þá ákveðinn hring, t.d. Kjarnaskógur­-Hamrar­-flugvöllur og tengja við bæinn,“ segir Edward og bætir við: „Ef mönnum er alvara með því að efla ferðaþjónustu á svæðinu þá verður að samþætta samgöngumáta.“

Bæjarráð Akureyrar hefur vísað erindinu til umhverfis­ og mannvirkjaráðs.

Nýjast