Kór Akureyrarkirkju fetar nýjar slóðir

Akureyrarkirkja
Akureyrarkirkja

Kór Akureyrarkirkju undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar mun ásamt  jasshljómsveit  halda tónleika í Akureyrarkirkju sunnudaginn 8. maí kl. 20:00 þar sem flutt verða sönglög eftir Tómas R. Einarsson og Sigurð Flosason. Lagahöfundarnir verða báðir í hljómsveitinni sem spilar með kórnum, Tómas R. spilar á bassa og Sigurður á saxófón. Þriðji í hljómsveitinni verður Gunnar Gunnarsson á píanó. Kór Akureyrarkirkju hefur í gegnum tíðina sungið tónlist af ýmsum toga og nú fetar hann nýja slóð með því að flytja tónlist eftir Tómas R. Einarsson og Sigurð Flosason.

Lög Tómasar eru allt frá því að vera klassísk sönglög upp í djass og blús en tónlist Sigurðar er sálmalög. Bassaleikarinn og tónskáldið Tómas R. Einarsson hefur gefið út fjölda diska með frumsaminni tónlist. Þar hefur djass og latíntónlist verið í öndvegi en Tómas hefur einnig gefið út söngdiska í samstarfi við ýmsa söngvara, þar á meðal diskinn Mannabörn þar sem Tómas fékk m.a. til liðs við sig söngkonuna Sigríði Thorlacius.

Gunnar Gunnarsson útsetti lögin á plötunni fyrir kór og afraksturinn var gefinn út í nótnaheftinu Mannabörn Tómasar R. árið 2014. Úr þessu nótnahefti flytur Kór Akureyrarkirkju nokkur lög Tómasar við ljóð hans, Halldórs Laxness, Snorra Hjartarsonar, Kristínar Svövu Tómasdóttur og Sigurðar Guðmundssonar. Saxófónleikarinn Sigurður Flosason hefur til fjölda ára verið í framvarðasveit íslenskrar djasstónlistar og einnig hefur hann lagt lið dægurtónlist af ýmsum toga. Hann hefur gefið út fjölda geisladiska, fyrst og fremst djass, en einnig hefur hann fengist við sálmatónlist.

Árið 2010 var gefið út nótnaheftið Sálmar á nýrri öld með 26 nýjum frumsömdum sálmalögum Sigurðar við ljóð Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar og þar má fullyrða að hafi bæst margar ómetanlegar perlur við íslenska sálmatónlist. Sigurður útsetti sálmana fyrir blandaðan kór og nokkra þeirra flytur Kór Akureyrarkirkju á tónleikunum 8. maí. Gunnar Gunnarsson píanóleikari og organisti er Akureyringur í húð og hár. Hann vakti fyrst athygli þegar hann spilaði dægur- og djasstónlist í hljómsveitum á Akureyri, m.a. með þeim Eydalsbræðrum. Hann færði sig síðar í kirkjutónlistina og hefur verið organisti og kórstjóri í Reykjavík. Hann hefur mikið unnið með bæði Tómasi R. Einarssyni og Sigurði Flosasyni og á þessum tónleikum á hann útsetningar á lögum Tómasar og ennig lagði hann Sigurði lið við frágang nótnaheftisins Sálmar á nýrri öld.

 

 

Nýjast