Konur fjalla um eigin reynslu af atvinnurekstri á ráðstefnum

Um sjö hundruð íslenskar konur hafa nú lokið Brautargengi, námskeiði fyrir konur sem vilja hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd og reka fyrirtæki. Tíu ár eru liðin frá því að fyrsti Brautargengishópurinn útskrifaðist.  

Í tilefni þess stendur Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands fyrir opnum ráðstefnum þar sem kjarnakonur fjalla um eigin reynslu af atvinnurekstri, fjármögnun og lífsstíl. Ráðstefnurnar verða haldnar í Reykjavík, á Ísafirði og Akureyri dagana 18. - 20. september. Ráðstefnan á Akureyri fer fram að Borgum í dag, föstudaginn 19. sepetmber og stendur frá kl. 14-17.

Kannanir sem gerðar hafa verið um árangur Brautargengis sýna að um helmingur kvenna sem tekið hafa þátt í námskeiðinu hefur farið af stað með rekstur. Yfir þrjú hundruð Brautargengisfyrirtæki eru starfandi á landinu í dag, 200 á höfuðborgarsvæðinu og 130 á landsbyggðinni. Viðskiptahugmyndir kvennanna á Brautargengi eru fjölbreyttar, allt frá snyrtivöru, hönnun og ferðaþjónustu til hugbúnaðarfyrirtækis, hótelreksturs og líkamsræktarstöðva. Brautargengi er 70 klst. nám dreift yfir eina önn. Á námskeiðinu læra þátttakendur grundvallaratriði fjármála, vöru- og þjónustuþróunar, markaðsmála og stjórnunar og ýmis hagnýt atriði um stofnun og rekstur fyrirtækja.

Nýjast