Kona á níræðisaldri beitir sér fyrir byggingu blokkar fyrir eldri borgara

Ásdís Árnadóttir er með allt í hendi til að framkvæmdir geti hafist þegar byggingarlóð hefur fengist…
Ásdís Árnadóttir er með allt í hendi til að framkvæmdir geti hafist þegar byggingarlóð hefur fengist. Mynd/ Margrét Þóra Þórsdóttir.

„Ég trúi því aldrei að Akureyrarbær hafni 80 öldruðum einstaklingum um lóð“

- segir Ásdís Árnadóttir

 

Ásdís Árnadóttir er Akureyringur á níræðisaldri sem er búin að fá sig full sadda af yfirverði á blokkaríbúðum fyrir eldri borgara. Hún hefur nú tekið málin í sínar hendur og beitir sér nú fyrir byggingu blokkar með íbúðum á viðráðanlegu verði fyrir þennan hóp fólks. Vikublaðið ræddi við hana um verkefnið en það eina sem vantar til að framkvæmdir geti hafist er byggingarlóð.

Ásdís starfaði um árabil sem sölustjóri fyrir Samvinnuferðir Landsýnar allan þann tíma sem fyrirtækið var starfandi. „Síðustu tíu árin fór ég líka sem fararstjóri með hópa, aðallega til spænskumælandi landa,“ segir þessi eldhressi eldri borgari sem berst nú af ástríðu fyrir málefnum eldri íbúa Akureyrar. Ásdís kvartar ekki þegar blaðamaður kallar hana aktívista og ekki stendur á svörum þegar hún er spurð að því hvers vegna hún sé að standa í þessari baráttu á sínum efri árum. „Ég hefði sennilega verið greind ofvirk einhvern tímann,“ segir hún og skellihlær.

Blöskrar verðið

Ásdís segir húsnæðismál eldri borgara hafa verið henni hjartans mál í mörg ár. „Allt frá því að ég ætlaði fyrst að kaupa í eldriborgara blokk en það er orðið langt síðan það var,“ segir hún ákveðin og bætir við að hún hafi alltaf verið yfirboðin.  „Þar sem ég var með íbúð í gamalli blokk þá átti ég aldrei séns. Svona er þetta búið að ganga mörgum sinnum og mér hefur ofboðið verðið sem er sett á þessar íbúðir. Það hefur heldur engin getað svarað því hvers vegna þær eru svona dýrar þessar íbúðir. Þessar íbúðir eru einfaldlega langt yfir normal verði.“

Ásdís segist að lokum hafa neyðst til að skipta um íbúð því hún hafi verið með svo marga stiga, það hafi orðið erfiðara með aldrinum.

Á von á tilboði frá tveimur verktökum

„Við fórum á stúfana og keyptum íbúð suður undir Kjarnaskógi í lítilli 21. íbúða blokk sem er verið að klára. Sú íbúð er á gangverði og þá fór ég að hugsa; af hverju er ekki hægt að byggja svona íbúðir fyrir eldri borgara á eðlilegu gangverði. Í framhaldi af því fór ég að ræða við byggingameistarann sem byggði þetta hús. Hann telur að það sé ekkert mál að byggja svona fjölbýlishús sem er eingöngu fyrir eldri borgara og var til í það,“ útskýrir Ásdís og bætir við að þá hafi ekki verið aftur snúið.

Ásdís er nú þegar búin að vera í viðræðum við tvo byggingaverktaka á Akureyri sem báðir eru tilbúnir að ganga í verkið. Hún er einnig komin með hönnuð sem vill hanna íbúðablokk með fallegum einföldum íbúðum í tveimur til þremur stærðarflokkum. Eftirspurn mun ráða því hvort blokkin verður þriggja eða fjögurra hæða. „Ég fæ tilboð frá tveimur af stærstu verktökum bæjarins  á næstunni en stóra málið er lóðin. Mér var ráðlagt að búa til þrýstihóp og ég er búin að stofna slíkan hóp á Facebook. Nú þegar eru um 80 manns komnir í hópinn sem allir hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga og eru spenntir fyrir þessu dæmi.“ Lóðin sem Ásdís hefur augastað á verður auglýst í ágúst. „Við erum að skjóta okkur á lóð sem er í Sandgerðisbrekkunni með yfirsýn yfir smábátahöfnina en ég held að hún verði auglýst í ágúst,“ segir hún.

Ásdís er vongóð um að hreppa umrædda lóð. „Við getum reyndar ekki sótt um hana sjálf heldur verður það byggingaverktakinn sem við semjum við en með okkur þennan þrýstihóp á bakinu,“ segir hún og bætir við að það gæti farið svo að þau þurfi að stofna formlegan félagskap utan um hópinn. Fundur verður auglýstur á Facebook þar sem verkefnið verður kynnt um leið og lóðarmálin leysast.

„Ég trúi því aldrei að Akureyrarbær hafni 80 öldruðum einstaklingum um lóð,“ segir Ásdís með áherslu í röddinni og segist jafnframt vera vonsvikin yfir því að EBAK hafi ekki viljað standa við bakið á sér í þessari baráttu.

Mikil eftirspurn

Aðspurð segir Ásdís að næg sé eftirspurnin á meðal eldri aldurshópa á íbúðum til eignar. Hún segist ekki vita til þess að það sé nokkuð annað verkefni af þessum toga í gangi á Akureyri um þessar mundir nema hjá Búfesta. „Það er búið að auglýsa íbúðaverkefni fyrir eldri borgara og Félag eldri borgara á Akureyri (EBAB) stendur við bakið á þeim.. Það er bara allt annar handleggur, þarna er verið að tala um  leiguíbúðir og  búseturéttaríbúðir,“ segir hún.

Ásdís kveðst vera komin með gangverðin á íbúðirnar eins og þau eru í dag og þau ættu ekki að breytast mikið en viðurkennir að hún hafi áhyggjur af gatnagerðargjöldunum. „Akureyrarbær er að skella á stórhækkuðum gatnagerðargjöldum og það kemur auðvitað illa niður á öllum sem eru að fara byggja,“ útskýrir hún. Þarna vísar hún til þessa að í júní á þessu ári var samþykkt í bæjarstjórn umtalsverð hækkun gatnagerðargjalda. Gatnagerðargjöld vegna fjölbýlishúsa  hækka úr 7,5% í 12,5% af verðmæti skilgreinds vísitöluhúss.

„Ég er með mjög góðan ráðgjafa í þessu með mér sem er hönnuður og er með öll verð eins og þau eru í dag á hreinu. Ef við fáum þessa lóð þá er ekkert því til fyrirstöðu en að byggja þessa blokk, verktakarnir segjast geta byggt hana á einu ári. Mér er sagt að þessar lóðir séu tilbúnar í janúar á næsta ári. Ef við fáum þær þá verður hægt að byrja að byggja strax eftir áramótin,“ útskýrir Ásdís og bætir við að hún vilji að það komi skýrt fram að þetta verði byggt með hagkvæmni í fyrirrúmi.

„Ég tek skýrt fram að það er mitt hjartans mál að þetta verði gert með þeim hætti að allir geti ráðið við þetta. Þetta á bara að vera venjuleg eldriborgara blokk, einfalt og praktískt. Við komum til með að velja íbúðir til að leyfa fólk að skoða, þannig að hver og einn geti valið íbúð við sitt hæfi áður en þær eru tilbúnar, með lyftu og bílakjallara fyrir þá sem það kjósa.“ segir Ásdís.

„Ég hef verið spurð að því hvort ég sé með eitthvað í hendi og ég segi hiklaust að ég sé með allt í hendi. Ég er með tvo af stærstu byggingaverktökum bæjarins, báðir vilja og geta tekið verkefnið að sér. Þannig að það er allt klárt nema lóðin,“ segir hún að lokum.


Nýjast