Nóg hefur verið að gera hjá verktökum í snjómokstri á Akureyri eftir fannfergið síðustu daga. Finnur Aðalbjörnsson, eigandi verktakafyrirtækisins Finnur ehf., sér m.a. um mokstur í bænum og þar hefur verið nóg að gera síðustu daga.
„Það kom mikill snjór á stuttum tíma í öllum bænum og þetta er mjög þungur og erfiður snjór. Þess fyrir utan var ekkert spáð svona mikilli úrkomu og því kom þetta svolítið í bakið á manni. Allt í einu var maður farinn að moka snjó nánast alla sólarhringinn,“ segir Finnur. Hann segist hafa unnið 16-18 tíma á dag undanfarna daga.
„Við byrjum klukkan þrjú á nóttunni en stundum á miðnætti. Ég er yfirleitt búinn að moka ansi mörg plön þegar ég fer að moka göturnar klukkan fimm. Við erum með tvöfalt vaktakerfi á vélunum þegar svona mikið er að gera. En þetta eru ansi langir vinnudagar og þegar maður er orðinn fimmtugur endist maður ekkert í margar vikur í svona törn. Ég er alveg orðinn dasaður eftir þetta,“ segir Finnur.
Skiptar skoðanir um moksturinn
Líkt og undafarin ár eru skiptar skoðanir bæjarbúa um ágæti snjómokstursins í bænum. Finnur segir þá sem kvarta hins vegar vera í miklum minnihluta. „Fólk er almennt sátt, en það eru alltaf einhverjir sem kvarta og yfirleitt er það sama fólkið sem er með allt á hornum sér,“ segir Finnur. „En það kemur líka fólk út hlaupandi og gefur okkur heitt kakó og kleinur og allt mögulegt fyrir að moka. Það gleður mann alltaf.“
Á vef Akureyrarbæjar um snjómokstur segir að þær götur sem njóta forgangs í snjómokstri séu stofnbrautir, helstu tengibrautir m.a. að neyðarþjónustu eins og sjúkrahúsi, lögreglu, slökkviliði, strætisvagnaleiðum og fjölförnum safngötum. Húsagötur eru ekki mokaðar nema þær séu þungfærar einkabílum eða stefni í að þær verði þungfærar og ef von er á hláku.
Húsagötur og fáfarnari safngötur eru aðeins hreinsaðar ef þær eru þungfærar einkabílum. Almennt er hreinsaður snjór frá innkeyrslum en við snjóhreinsun gatna er þó líklegt að það myndist einhver snjóruðningur eða kögglar við innkeyrslur sem Akureyrarbær nær ekki að hreinsa og þurfa því íbúar að sjá um það sjálfir. Stofnstígar svo sem göngu- og hjólastígar milli bæjarhluta fá forgang í hreinsun ásamt helstu leiðum sem liggja að skólum, leikskólum, strætóbiðstöðvum og helstu stofnunum bæjarins.