Kom, sá og sigraði

Þorsteinn ásamt sambýliskonu sinni og meðeiganda Helgu Dagný Einarsdóttur, ytra. Mynd/aðsend.
Þorsteinn ásamt sambýliskonu sinni og meðeiganda Helgu Dagný Einarsdóttur, ytra. Mynd/aðsend.

Þorsteinn Snævar Benediktsson, eigandi og bruggmeistari hjá Húsavík öl, hefur síðustu ár stimplað sig rækilega inn sem einn fremsti bruggari landsins. Hann hefur sópað að sér verðlaunum undanfarin ár á innlendum og erlendum bjórhátíðum. Fyrr í þessum mánuði bætti hann enn einum verðlaununum í safnið á alþjóðlegri bjórhátíð í Metz í Frakklandi. Vikublaðið ræddi við Þorstein á dögunum, en með honum í för var sambýliskona hans og meðeigandi að Húsavík öl, Helga Dagný Einarsdóttir.

„Við fórum á Metz-beer fest dagana 5-9 október. Þetta er stór alþjóðleg hátíð þar sem þátttakendur eru sérvaldir á hátíðina,“ segir Þorsteinn. Hann var einn þeirra sem fékk boð á hátíðina en það er skemmtilega saga á bak við það.

Davíð gegn Golíat

„Einn úr stjórn hátíðarinnar var á ferðalagi um Ísland, kom við á Húsavík og rambaði inn gestastofuna okkar fyrir tilviljun,“ útskýrir Þorsteinn. Frakkinn hefur heldur betur verið ánægður með það sem honum var boðið upp á á Húsavík öl,  því skömmu síðar barst Þorsteini tölvupóstur frá stjórnarmanninum ánægða sem bauð hann velkominn á hátíðina. „Það að vera boðinn á svona stóra hátíð er útaf fyrir sig mjög mikill heiður þar sem þarna voru saman komin fyrst og fremst stór brugghús. Öll mikið stærri en við með dreifingarnet víðsvegar um Evrópu.“ Húsavík öl aftur á móti er fyrst og fremst að selja sínar afurðir á Húsavík og reglulega má finna afurðirnar á bestu bjórbörum Reykjavíkur. Það má því segja að Þorsteinn hafi verið eins og Davíð gegn Golíat á hátíðinni.

Þorsteinn segist hafa mætt á hátíðina með tvær bjórtegundir en birgðirnar hafi selst upp á skömmum tíma. Til allra lukku var Þorsteinn með þriðju tegundina til vara sem reyndar seldist einnig upp. Alla dagana gefst gestum hátíðarinnar kostur á að gefa bjórunum einkunn og kjósa sér sitt uppáhalds brugghús. Það er skemmst frá því að segja Húsavík öl hlaut náð fyrir bragðlaukum gestanna og var valið besta brugghúsið á hátíðinni.

Kom sá og sigraði

Steini Benna

Aðspurður um viðbrögðin þegar tilkynnt var um úrslitin segist Þorsteinn hafa verið nokkurn tíma að átta sig á því að hafa borið sigur úr bítum. „Þetta var allt tilkynnt á frönsku, þannig að ég var ekki alveg að átta mig á hvað væri að gerast. Skömmu síðar fengum við túlk og okkur var réttur blómvöndur og viðurkenningaskjal. Svo var mikið klappað og smám saman rann það upp fyrir okkur að við höfðum unnið,“ segir hann og hlær. „Við vissum ekkert hvað var verið að kjósa um en það reyndist svo vera besta brugghúsið.“

Þorsteinn segir að í raun hafi ekki verið að velja bestu bjórtegundirnar heldu heildar upplifun brugghúsanna. Eins og áður segir tefldi Þorsteinn fram tveimur tegundum. Við vorum með Skyrcake Gose to Metz, en það er pastry súrbjór sem er úr Gose stílnum. „Hugmyndin á bak við hann var sú að við vildum koma með eitthvað sérstakt. Okkur hefur líka gengið mjög vel í keppnum með súrbjóra. Við ákváðum því að taka með okkur einn súrbjór og kynna í leiðinni fyrir útlendingum skyrkökuna, sem er séríslenskt fyrirbrigði. Ég skyrsýrði bjórinn með skyrgerlum, svo er hann með  bláberjum, hindberjum, sítrusberki og vanillu. Þessi bjór var gríðarlega vinsæll og var sá bjór sem kláraðist fyrstur á hátíðinni,“ útskýrir Þorsteinn og bætir við að hinn bjórinn sem hann bauð upp á hafi verið sérlega vinsæll meðal hinna bruggaranna.  

„Það var bjórinn Wild yeasty Boi. Við gerð hans sóttum við gerið sjálf út í Aðaldalshraun og tunnuþroskuðum svo í eitt ár á tequila tunnum. Hann var líka gríðarlega vinsæll en kannski meira svona bjór fyrir bruggara, þeir sóttu meira í hann,“ segir Þorsteinn sem var hinn ánægðasti með förina til Frakkklands.  

Til að setja þennan árangur Þorsteins í samhengi, þá tóku rúmlega 30 brugghús þátt í hátíðinni og hvert þeirra með 2-4 bjóra. Auk þess sóttu yfir 3000 gestir hátíðarhöldin.

 Hefur slegið í gegn með súrbjóra

Aðspurður segir Þorsteinn að það megi vel segja það að súrbjór að verða hans sérgrein sem bruggmeistara. „Já það má kannski segja það og það hefur gerst hálf óvart að IPA og súrbjórinn okkar hafa orðið okkar aðaltegundir. Í þeim bjórkeppnum sem við höfum farið á höfum við fengið fyrstu verðlaun tvisvar og önnur verðlaun einu sinni fyrir súrbjór,“ útskýrir Þorsteinn og bætir við að vinsældir súrbjórsins séu hægt og rólega að aukast. Hann tekur þó fram að þrátt fyrir að hafa skapað sér nafn fyrir bruggun súrbjóra, þá bruggi hann enn meira af lagerbjórum.

„Við erum enn að heyra að þetta sé nú ekki bjór frá fólki af gamla skólanum sem helst vill drekka lager, en þetta er samt eldri bjórstíll en lagerbjórinn ef út í það er farið,“ segir hann.

„Þetta er alltaf að aukast aðeins, sala á súrbjór hér á Íslandi en yfir höfuð þá erum við enn með mun sterkari lager menningu. Þetta er þó að breytast í rólegheitunum og fólk að verða opnara fyrir því að smakka eitthvað annað en bara þetta klassíska.“

 Frumvarp breytir miklu

Sala áfengis beint frá brugghúsum varð heimil frá og með 1. júlí sl., en frumvarp dómsmálaráðherra þess efnis var samþykkt sem lög frá Alþingi 15 júní. Þorsteinn fer ekki leynt með það að nýju lögin séu afar mikilvæg fyrir rekstrarumhverfi lítilla handverksbrugghúsa eins og Húsavík öl.

„Við fengum okkar leyfi í júlí, rétt fyrir Mærudaga og mokuðum út dósum. Svo kláruðum við dósabrettin okkar og vorum bara að fá nýjar birgðir núna fyrir skemmstu. Við treystum á að heimamarkaðurinn verði okkur hliðhollur áfram. Nú fer jólavertíðin að bresta á en við erum nú þegar búin að fá pöntun frá Bjórland.is upp á fleiri tugi kassa. Ég vil að sjálfsögðu ekki selja minna á Húsavík en í Rekjavík,“ útskýrir Þorsteinn glettinn.

 Undirbúa jólavertíðina

Undanfarin ár hefur fjölbreytni í jólabjórum verið að breytast í ákveðið menningarfyrirbrigði og flóran sífellt að aukast. „Við ætlum að hita upp fyrir vertíðina með millidökkum tékkneskum lagerbjór. Hann er kominn á dósir ásamt einum IPA bjór. Svo dettum við inn á fleiri tegundir á næstu vikum. Session IPA og porter,- það virðist ekki vera hægt að halda jól án þess að vera með einn dökkan. Svo af því að súrölið er eitthvað sem fólk tengir okkur við, þá verðum við með jólasúrbjór með kirsuberjum og vanillu,“ útskýrir Þorsteinn.

Þorsteinn tekur undir með blaðamanni að jólabjóramenningin sé sífellt að verða áhugaverðari en viðurkennir að handversksbrugghúsin séu í svolítið skondinni stöðu gagnvart því fyrirbæri.

„Þetta er svolítið fyndið með þessa nýju kynslóð bruggara eins og mig. Ég veit í rauninni ekkert hvað ég á að gera öðruvísi en venjulega annað en að nota forskeytið „jóla“ í nafnið á bjórnum. Fyrr þegar bjórmenningin á Íslandi var einsleit, þá var þetta eina tilbreytingin á árinu og oft ekki mikil tilbreyting önnur en sú að nota aðeins sætara korn í gamla góða lager bjórinn. Við sem erum hsvort sem er alltaf að breyta einhverju, höldum bara áfram við að gera tilraunir í jólamánuðinum eins og aðra mánuði,“ segir Þorsteinn að lokum.


Athugasemdir

Nýjast