02. mars, 2010 - 16:39
Fréttir
Frystitogarinn Kleifarberg ÓF úr Ólafsfirði, sem er í eigu Brims hf., er þessa stundina að leggjast að bryggju í Reykjavík, eftir
fjögurra vikna veiðiferð í Barentshafið. Aflaverðmæti togararns er um 300 milljónir króna og afli upp úr sjó ríflega 1000 tonn.
Uppistaða aflans er þorskur. Þetta mun vera mesta aflaverðmæti sem skip í eigu Brims hefur komið með að landi.
Mjög góð veiði hefur verið í Barentshafi að undanförnu og hafa fleiri íslensk skip verið að koma að landi með gríðarlegt
aflaverðmæti. Á dögunum kom frystitogarinn Venus með um 330 milljónir króna í aflaverðmæti úr Barentshafi og frystitogarinn Arnar HU
frá Skagaströnd var með um 260 milljónir króna í aflaverðmæti.