Klassískar perlur á síðsumri með fiðlusmellum og sönglögum í Hofi
Þriðju fimmtudagstónleikar sumarsins í tónleikaröð 1862 Nordic Bistro og Menningarfélags Akureyrar verða haldnir í Hofi á fimmtudagskvöld.
Það eru þau Lára Sóley Jóhannsdóttir, Daníel Þorsteinsson og Hjalti Jónsson sem munu flytja klassískar söngperlur og létta fiðlusmelli í Hömrum í þetta sinn. “Alþýðleg og ljúf stemning mun ráða ríkjum,” segir í tilkynningu.
Lára Sóley er fiðluleikari og spilar með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hún var bæjarlistamaður Akureyrar 2015 og þakkaði fyrir sig með eftirminnilegum tónleikum fyrir fulli húsi í Akureyrarkirkju í vor. Daníel Þorsteinsson píanisti er sterkt afl í íslenskri tónlist og hefur m.a. stjórnað Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hjalti Jónsson er söngmaður og gítarleikari. Þau Hjalti og Lára hafa síðastliðin tvö ár haldið fjölmarga tónleika saman um allt land.