Félagið Hlíðarhryggur ehf. var formlega stofnað í gær en að félaginu standa Sannir Landvættir, Íslensk Verðbréf, Yrki Arkitektar, Akureyrarbær, Verkís og Umsýslufélagið Verðandi. Hið nýstofnaða félag mun leitast við metnaðarfullta uppbyggingu í Hlíðarfjalli sem byggir á hönnun Yrki arkitekta frá árinu 2015. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Hópurinn hefur það að markmiði að svæðið bjóði upp á víðtæka möguleika til útivistar og afþreyingar allt árið um kring en hópurinn var myndaður í kjölfar þess að Akureyrarbær fól Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar að auglýsa eftir áhugasömum aðilum til að taka að sér rekstur og uppbyggingu skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli með það að markmiði að auka þjónustu við bæjarbúa, íþróttaiðkendur og ferðamenn. Verkefnið, sem enn er í mótun, hefur hlotið nafnið Hlíðarfjall-Alla leið og hefur hlotið góðar undirtektir hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og Akureyrarbæ.
Tillaga hópsins byggir á að taka allt Hlíðarfjallssvæðið í sína umsjá næstu 35-40 árin, byggja það upp, markaðssetja það og reka með hagsmuni sem flestra að leiðarljósi. Rík áhersla er lögð á að svæðið þjóni sem breiðustum hópi samfélagsins og tryggt verði gott aðgengi fyrir alla að Hlíðarfjalli sem heilsárs útivistarparadís. Í tillögunni er meðal annars gert ráð fyrir að opnað verði fyrir aðgengi upp á topp fjallsins með kláfi og gera þannig öllum kleift að njóta svæðisins, sem og að reisa hótel efst í fjallshlíðunum. Aðstaða fyrir gesti og íþróttafélög sem sækja svæðið heim verður stórbætt.
Vernd náttúru Hlíðarfjalls og aðliggjandi svæða verður í fyrirrúmi og fullt tillit tekið til vatnsverndarsvæða er umlykja svæðið. Stýrihópur á vegum stofnaðila hefur verið settur á laggirnar sem mun vinna málið áfram og mun á næstu vikum verða ráðast í ítarlega og nauðsynlega greiningarvinnu á ástandi svæðisins, húsa- og tækjakosti þess ásamt greiningu á rekstarforsendum og hugsanlegri fjármögnun. Á næstu vikum mun stýrihópurinn eiga fundi með hugsanlegum samstarfsaðilum og fjárfestum.
Svæðið bíður upp á marga möguleika
Arnór Þórir Sigfússon, framkvæmdastjóri Sannra Landvætta, segir í samtali við Vikudag að svæðið bjóða upp á mikla möguleika.
„Í dag er þetta svæði einungis nýtt yfir háveturinn en við sjáum fyrir okkur reiðhjólabrautir sem hægt væri að nýta lyfturnar í. Einnig er hugmynd að nýta friðlandið í Glerárdal til göngu, hjólreiða og hestamennsku. Tækifærin eru ótalmörg og eflaust margt sem við höfum ekki áttað okkur á og erum opin fyrir góðum hugmyndum,“ segir Arnór.