Thora Karlsdóttir myndlistamadur, og formaður Gilfélagsins var í níu mánuði eða 280 daga í svokölluðum kjólagjörningi, frá 1.mars til 5.des. 2015. „Gjörningurinn gekk út á það að á hverjum morgni klæddi ég mig í nýjan kjól og var í honum allan daginn. Kærastinn minn Björn Jónsson sem er áhugaljósmyndari tók síðan mynd af mér sem ég birti á FB síðu sem heitir 280 kjólar,“ segir Thora í samtali við Dagskrána.is.
Thora gerði sér lítið fyrir og póstaði mynd af sér í kjól fyrir miðnætti á hverjum degi á meðan að gjörningnum stóð. „Ég var með þemamánuði, einn mánuðinn var ég með kjólabreytingar. Þá saumaði ég nýjan kjól á hverjum degi. Það var mjög mikil vinna en gaman líka,“ segir hún.
Thora saumaði líka kjóla úr óhefðbundnum efnum, þar má nefna gamla póstpoka. Endurnýting var því í hávegum höfð. Hún sagði að það hafi verið mjög gaman hvað fólk var duglegt að fylgjast með. „Það voru nokkar konur sem sendu mér póst og sögðust alltaf vera í kjól á föstudögum, þó þær væru að vinna í frystihúsi. þannig að þetta var mjög skemmtilegt á margan hátt,“ segir Thora en bætir við að þetta hafi líka oft verið erfitt. „Ég var eitt sinn föst í snjóskafli þegar ég var í mjög síðum kjól og var gangandi uppá brekku. Ég vissi ekkert hvort þetta myndi takast, en það gerði það og ég er mjög stolt af sjálfri mér og glöð að þetta tókst. Svo er ég auðvitað endalaust þakklát honum Bubba mínum fyrir myndatökuna, þolinmæðina og stuðninginn,“ segir hún.
Thora hlaut á dögunum 100.000 kr. í styrk frá Menningarsjóði Akureyrar, en til stendur að setja upp sýningu á afrakstri kjólagjörningsins sem er auglýst í sýningarskrá Listasafnsins og opnar þann 10.sept. og stendur til 13. nóv. Sýningin verður í Ketilhúsinu. Thora er einnig með bók í vinnslu en hún mun skarta kjólamyndum ásamt því að fjalla um gjörninginn. Það er kærasti Thoru, Björn Jónsson sem tók myndirnar en kjólarnir komu frá fólki sem gaf þá í nafni listarinnar.
„Að klæða sig í nýjan kjól á hverjum morgni og klæðast kjól til allra verka í 280 daga, 40 vikur, níu mánuði er áskorun sem þarfnast úthalds og elju. í daglegri skapandi skulbindingu getur allt gerst,“ segir Thora og bætir við að opnað verði fyrir hópfjármögnun á Karolinafond innan skamms til að standa undir kostnaði við bókaútgáfuna.
Thora Karlsdottir er útskrifuð frá Ecole d‘Art Izabela B. Sandweiler í Lúxemborg 2008 og Europäische Kunstakademie Trier í Þýskalandi 2013. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga á Íslandi og erlendis og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum um allan heim.
Thora er einnig með Lifandi Vinnustofu efst í listagilinu. „Ég hef boðið upp á ókeypis heilaþvott á sumrin og ókeypis snjókúlur á veturna,“ segir hún. Lifandi vinnustofa er á Facebook, síðuna má skoða hér. /EPE