Kiwanishreyfingin afhenti Lautinni fjárstyrk
Kiwanishreyfingin á Íslandi afhenti Lautinni á Akureyri, fjárstyrk í dag að upphæð 5,5 milljónir króna. Lautin er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og er til húsa við Brekkugötu. Það var Ragnar Örn Pétursson umdæmisstjóri Kiwanis á Íslandi og í Færeyjum sem afhenti Brynjólfi Ingvarssyni geðlækni og formanni Geðverndarfélags Akureyrar styrkinn, að viðstöddu fjölmenni. Áður hafði Kiwanishreyfingin veitt tvo styrki í Reykjavík, samtals að upphæð 17 milljónir króna.
Bugl, barna- og unglingageðdeild Landspítalans fékk styrk að upphæð 8,5 milljónir króna og sömu upphæð fékk Meðferðarheimili foreldra og barna í Reykjavík. Fjárupphæðin er afrakstur af sölu K-lykilisins sl. vor en Kiwanishreyfiningin hefur varið þeim fjármunum til geðverndarmála. K-lykilinn hefur verið seldur af kiwanisfélögum um allt land á þriggja ári fresti sl. 40 ár. Einnig var skrifað undir samkomulag á milli Kiwanishreyfingarinnar og Lautarinnar um stofnun á vörslusjóði til að halda utan um fjárupphæðina. Úr sjóðnum verður svo hægt að afhenda styrki samkvæmt ákveðnum reglum sjóðsins.
Þá afhentu Kiwanisklúbbarnir á Óðinssvæði, barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri, formlega í dag, vöktunartæki á deildina. Tækið er þegar komið í notkun á deildinni og það er mikilvægt og mikið notað þar, að sögn Andreu Andrésdóttur yfirlæknis barnadeildar. Lára Einarsdóttir fráfarandi svæðisstjói Óðinssvæðis afhenti Andreu og Aðalheiði Guðmundsdóttur deildarstjóra barnadeildar innranmað skjal til staðfestingar á gjöfinni.