Kirkjulistavikan hófst í gær með sannkallaðri fjölskylduhátíð, sem var um leið lokahátíð barnastarfsins þennan veturinn. Barnakórar Akureyrarkirkju fluttu lög úr söngleiknum Mamma Mia, undir stjórn Heimis Bjarna Ingimarssonar, en allir viðstaddir fengu tækifæri til að syngja, leika og gleðjast saman. Eftir athöfnina var grillað í veðurblíðunni og gleðin hélt áfram í Safnaðarheimilinu strax á eftir.
Effaþa í Safnaðarheimili
Í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju eru sýnd málverk og tré eftir Bryndísi Kondrup en þau mynda sögu um hina eilífu leit mannsins að tilgangi lífsins. Sýningin hefur hlotið nafnið ,,Effaþa" og opnaði í gær.
Hádegistónleikar
Margir af viðburðum vikunnar eru ókeypis og þar á meðal eru hádegistónleikar. Þrennir hádegistónleikar eru í boði í kirkjulistaviku, frá mánudegi til miðvikudags og hefjast þeir allir kl. 12:10. Á þeim fyrstu í dag fluttu Haukur Ágústsson, söngvari, og Daníel Þorsteinsson, píanóleikari, negrasálma. Á morgun þriðjudag, munu Eydís Úlfarsdóttir, sópran, Helena Guðlaug Bjarnadóttir, sópran og Guðný Erla Guðmundsdóttir, píanóleikari flytja Maríuljóð og önnur ljóð. Á þriðju og síðustu hádegistónleikunum á miðvikudag munu Eyþór Ingi Jónsson, orgelleikari og Hjörleifur Örn Jónsson, slagverksleikari, spinna tónlistarvef.
Kvikmyndasýning á Amtsbókasafninu
Í samstarfi við Amtsbókasafnið á Akureyri verður myndin, ,,To Verdener" sýnd en hún fjallar um stúlku úr trúfélagi Votta Jehóva í Danmörku sem verður ástfangin af strák sem stendur fyrir utan trúfélagið og neyðist hún til að velja á milli tveggja ólíkra heima. Kvikmyndin vakti mikið umtal í heimalandinu þegar hún var frumsýnd þar á síðasta ári og var ein af fimm mest sóttu dönsku myndum á síðasta ári. Hún byggir á sönnum atburðum og þykir sýna með nærgætnum og trúverðugum hætti hvernig félagslegu taumhaldi er viðhaldið innan trúfélagsins til að tryggja einingu hinna trúuðu í siðferðilegum og kenningarlegum efnum. Sýningin verður í Amtsbókasafninu í kvöld kl. 20:00.
Ljós og hljóð í kirkjuturnunum
Tvö af videoinnsetningarverkum Örnu Valsdóttur verða sýnd í kirkjulistaviku og hefur öðru þeirra, ,,Upp, upp, mín sál" verið valinn heldur óhefðbundinn sýningarstaður en það mun vera í kirkjuturnum Akureyrarkirkju. Sýningin opnar kl. 18:00 á þriðjudegi og verður opin frá 11:00-18:00 til sunnudags. Að auki verður verkið ,,Í hljóði" sýnt í kirkjunni á föstudegi og þar gefst fólki kostur á að njóta kyrrðar og íhuga á meðan verkið er sýnt.
Magadans
Námskeið í magadansi verður haldið í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju kl. 20.00, miðvikudaginn 6. maí. Farið verður lauslega í sögu magadansins, sem á sér fleiri en eitt form og er dansaður víða í mið-austurlöndum við brúðkaup og aðra mannfagnaði, af öllum aldurshópum og báðum kynjum. Kennd verða nokkur spor og hollar hreyfingar fyrir konur og karla á öllum aldri. Leiðbeinandi er Líney Úlfarsdóttir.
Krílasálmar
Krílasálmar er samheiti yfir kirkjuleg tónlistarnámskeið fyrir ungbörn og foreldra þeirra. Námskeiðin eiga rætur sínar að rekja til Danmerkur en orðið er þýðing á danska orðinu Babysalmesang. Á námskeiðinu er leitast við að kenna foreldrum hvernig nota má söng og tónlist til aukinna tengsla og örvunar við börnin þeirra en rannsóknir hafa sýnt að tónlist hefur góð áhrif á m.a. tilfinninga- og hreyfiþroska barna. Kennd eru ýmis lög og leikir í notalegu umhverfi kirkjunnar og lögð áhersla á söng og hreyfingu. Einkum er notast við tónlist kirkjunnar en einnig önnur þekkt barnalög, leiki og þulur.
Sönghæfileikar foreldranna skipta engu máli í þessu samhengi, börn elska rödd móður og föður framar öllum öðrum! Málið snýst fyrst og fremst um að rækta tengsl foreldris og barns. Kynning á krílasálmum verður haldið fimmtudaginn 7. maí kl. 10:00 í Akureyrarkirkju.
Helgihald
Helgihald verður einnig afar fjölbreytt þessa viku. Auk áðurnefndrar fjölskylduhátíðar verður morgunsöngur á þriðjudagsmorgni, mömmumorgunn á sínum stað á miðvikudagsmorgni, þar sem fram fer kynning á magadansnámskeiðinu, og kyrrðarstund í hádeginu á fimmtudegi. Hátíðarguðsþjónusta er síðan sunnudaginn 10. maí kl. 11:00 en þar munu kórar kirkjunnar syngja og gestir frá Coventry munu heiðra söfnuðinn með nærveru sinni.
Vorferð eldri borgara
Boðið verður upp á ferð fyrir eldri borgara, að Möðruvöllum í Hörgárdal, þar sem sr. Solveig Lára og sr. Gylfi taka á móti hópnum. Farið verður í kirkjuna og að því loknu drukkið kaffi í Leikhúsinu. Lagt verður af stað frá Akureyrarkirkju kl. 14.00, fimmtudaginn 7. maí. Einnig fer bíll frá Kjarnalundi kl. 13.00, Víðilundi kl 13.15 og Hlíð kl. 13.30.
Á léttu nótunum
Það er óhætt að segja að tónleikar Stúlknakórs Akureyrarkirkju verði á léttu nótunum en þær munu syngja ýmsa þekkta slagara eins og ,,Ömmubæn" og litla djassmessu við undirleik snillinga úr hinum akureyrska djassheimi. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 fimmtudaginn 7. maí.
Tvennir stórtónleikar
Þeir fyrri voru tónleikar kammerkórsins Hymnodiu, ásamt kammersveit í gær. Kirkjulistaviku lýkur með tónleikum Kórs Akureyrarkirkju sem mun ásamt kammersveit og einsöngvurum flytja verk eftir Händel og Mendelssohn. Kórinn hefur aldrei verið fjölmennari og telur nú um sjötíu félaga. Einsöngvarar eru Marta Guðrún Halldórsdóttir, sópran, Bragi Bergþórsson, tenór og Benedikt Ingólfsson, bassi. Stjórnandi er Eyþór Ingi Jónsson.
Matargerðarlist
Alla vikuna mun veitingastaðurinn Friðrik V bjóða upp á sérstakan Kirkjulistaviku-matseðil. Einnig verður hádegisverðarhlaðborð sem tilvalið er að nýta sér eftir hádegistónleika í kirkjunni.