Keypti Hammond orgel Karls Sighvatssonar til Akureyrar

Eitt þekktasta hljóðfæri landsins, Hammond orgel Karls heitins Sighvatssonar tónlistarmanns, er komið til Akureyrar. Haukur Tryggvason veitingamaður á Græna hattinum keypti orgelið á dögunum af syni Karls heitins. Hann hefur komið því fyrir á sviðinu á Græna hattinum, þar sem það verður notað við tónlistarflutning.  

Haukur var að vonum ánægður með að hafa náð hljóðfærinu norður en sagði kaupverðið trúnaðarmál. "Ég frétti af því að orgelið væri til sölu og skellti mér á það. Þetta er án vafa frægasta hljóðfæri landsins og hokið af sögu. Það er árgerð 1958 en var yfirfarið nýlega af Þóri Baldurssyni og hljómar því eins og best verður á kosið." Haukur segir að í kjölfar kaupanna á hljóðfærinu hafi hljómsveitir eins og Þursaflokkurinn og Dúndurfréttir bókað tónleika á Græna hattinum. Hann hefur fjárfest í fleiri hljóðfærum, sem auðveldar tónlistarmönnum að sunnan að koma norður til tónleikahalds.

Nýjast