Kemst Þór í úrslitaleikinn í bikarnum í fyrsta skipti?

Sannkallaður stórslagur fer fram í Valitor bikarkeppni KSÍ á Þórsvellinum í kvöld þegar Þór og ÍBV mætast í undanúrslitum kl. 19.15. Þórsarar hafa áður komist í undanúrslit en aldrei náð alla leið í stóra leikinn, sjálfan úrslitaleikinn á Laugardalsvellinum. Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs á von á hörkuleik. "Það er mikið í húfi en við stefnum að sigri eins og alltaf. Við höfum fulla trú á að við getum unnið hér á heimavelli og það væri gaman að komast í úrslitalleikinn í fyrsta skipti."  

Páll Viðar mætir með sitt sterkasta lið til leiks og hann vonast eftir því góðum stuðningi frá áhorfendum. "Bara það að eiga möguleika á að komast í úrslitaleikinn ætti að vera mikil hvatning fyrir okkur. ÍBV er með eitt besta lið landsins og við þurfum að eiga mjög góðan leik til að eiga möguleika. Við þurfum líka fullan völl af fólki, háværa og glaða stuðningsmenn til að hjálpa okkur yfir þennan þröskuld," sagði Páll Viðar.

Heimir Hallgrímsson þjálfari ÍBV sagði að leikurinn leggðist vel í sig og hann mætir einnig með sinn öflugasta mannskap til leiks. "En ég get lofað því að þetta verður hörkuleikur og mikil barátta. Þórsararnir spila af krafti og við verðum að vera tilbúnir í þann bardaga, því annars fer illa. Við vitum að það verður góð stemmning á Akureyri í kvöld og margt fólk. Rétt fyrir þjóðhátíð býst maður ekki við mörgum Vestmannaeyingum á Akureyri, þannig að stuðningurinn verður Þórsara. Það er líka ástæða til að hrósa stuðningsmönnum Þórs, þeir eru alveg frábærir og hafa sýnt langbesta stuðninginn sem ég hef séð í sumar. Þeir eiga hrós skilið fyrir það og við gerum okkur alveg grein fyrir því hversu erfiður þessi leikur verður fyrir okkur. Við verðum að eiga toppleik til að vinna á Akureyri. Við eigum ekki góðar minningar frá deildarleiknum og mér fannst að við hefðum átt að fá meira út úr þeim leik. Þórsararnir unnu vel fyrir þeim sigri, voru mjög duglegir og því má segja að þeir hafa átt skilið að vinna," sagði Heimir.  

 

Nýjast