Keflavík hafði yfir í hálfleik 50-33 þar sem mestu munaði um góðan kafla þeirra undir lok fyrri hálfleiks. Þórsarar léku hreint skelfilega á þeim kafla, gerðu hver tæknimistökin á fætur öðrum í sókninni og virtust ekki ráða við pressuvörn Keflvíkinga. Upphaf síðarihálfleiks var jafn hræðilegt og lok þess fyrri höfðu verið. Þórsarar gerðu sig seka um að gera mörg ódýr mistök, auk þess sem þeir létu það fara um of í skapið hjá sér. Keflvíkingar gengu hins vegar á lagið og náðu mest 34 stiga forystu. Guðmundur Jónsson sagði þá stopp fyrir hönd Þórsara og nánast eins síns liðs minnkaði hann muninn í 29 stig fyrir lok leikhlutans, 77-48. Guðmundur skoraði 12 af 15 stigum Þórs í leikhlutanum.
Fjórði leikhluti var besti leikhluti Þórsara í leiknum og þrátt fyrir að Keflavík hafi slakað aðeins á þá var greinileg framför í leik heimamanna. Þeir náðu þegar best lét að minnka muninn í 15 stig en leiknum lyktaði að lokum með 18 stiga sigri gestanna 93-76.
Guðmundur Jónsson var yfirburðamaður í liði Þórs og skoraði 24 stig. Næstur kom Ólafur Torfason með 12 stig auk þess sem hann tók fjölda frákasta. Aðrir náðu sér einfaldlega ekki á strik. Nýi leikmaðurinn, Konrad Tota, sýndi að þar fer ágætis leikmaður en hann þarf meiri tíma til að komast inn í leik liðsins.
„Lokahluti fyrri hálfleiks og upphaf þess síðari sáu algjörlega til þess að þessi leikur var aldrei spennandi,“ sagði Sigurður G. Sigurðsson, leikmaður Þórs eftir leikinn. „Við köstuðum þessu algjörlega frá okkur því ef við hefðum náð okkar besta leik hefði þessi leikur alveg getað orðið spennandi því við erum yfirleitt alltaf öflugir á heimavelli. Það voru samt jákvæðir hlutir í þessu hjá okkur og því megum við ekki gleyma. Næst er hörkuleikur gegn Breiðabliki og við ætlum að vera klárir í hann.“