Ragnar mun sjálfur mæta komandi þrengingartímum með því að semja við sína birgja í Danmörku og Þýskalandi um lækkun á vöruverði til verslunar sinnar og segir hann þá hafa sýnt málinu skilning og tekið vel í erindið. "Þeir eru tilbúnir að lækka sína vöru og það þýðir að við þurfum ekki að hækka vöruverð út úr okkar búð líkt og lá í loftinu. Við munum því mæta kreppunni með því að hækka vöruverð mun minna en útlit var fyrir að þyrfti að gera. Nú svo er auðvitað jákvætt að búið er að festa gengið," segir Ragnar. Hann segir að almennt sé verslun í bænum og eflaust landinu öllu minni en vanalega. Kaupmenn reyni að mæta slíku ástandi með því að lækka sína álagninu og veita afslætti. "Ég væri auðvitað að skrökva ef ég segði að verslun hefði ekki dregist saman að undanförnu," segir Ragnar og gerir ráð fyrir að það sama verði uppi á teningnum á næstunni.
Jákvæði punkturinn sé sá að verslunarferðir til útlanda hafi svo gott sem lagst af í þessu árferði og það minnki tjón íslenskrar verslunar. Hins vegar sé óvenju hagstætt fyrir útlendinga að versla á Íslandi um þessar mundir og gerir Ragnar ráð fyrir að erlendir gesti notfæri sér það. Hann kveðst finna fyrir kvíða hjá fólki, en vonar þó að ástandið lagist og þjóðin rétti úr kútnum. Hann segir ekki ástæðu til að vera með barlóm, en þó geri menn sér grein fyrir að t.d. jólaverslun muni að líkindum dragast eitthvað saman frá því sem verið hefur. "Það yrði bara óeðlilegt ef ekki yrði samdráttur í jólaverslun núna við þessar aðstæður," segir hann. "Það er alveg á hreinu að kaupmenn munu taka sinn skerf af skellinum, ég geri mér fullkomnlega grein fyrir því."
Þrátt fyrir erfitt ástand, óöryggi og óvissu segir Ragnar furðu gott hljóð í fólki almennt, það virðist hafa meðtekið boðskapinn um að standa vörð um það sem mestu skiptir, "þó peningar glatist er það ást og umhyggja sem mestu skiptir og að menn haldi heilsunni. Mér finnst fólk mikið tala á þeim nótum."