Kattafláning og kirkjuganga.
Það hendir mig stundum í hugsunarleysi að fara að hugsa um eitthvað sem dettur upp í hugann. Og þetta henti einmitt í dag.
Ég fór að velta fyrir mér mismunandi aðferðum sem okkur standa til boða til að koma hugmyndum okkar og afstöðu áframfæri eftir því í hvaða tilgangi það er gert hverju sinni. Þó vissulega megi flá kött á fleiri en einn veg, eins og faðir minn heitinn sagði stundum, og að hver maður verði að fá að hafa sinn hátt á kirkjugöngunni, þá eru ekki allar aðferðir jafn vel til þess fallnar að ná árangri.
Það gerðist nú í vikunni að forseti lýðveldsins sætti harðri gagnrýni fyrir að hafa fjallað opinberlega um hinn látna páfa kaþólsku kirkjunnar sem Pope Francis. Gagnrýnandinn sem fremst gekk opinberlega kraðist þess að íslenskur forseti notaði rétt íslenskt mál og vísaði til hins látna sem Frans páfa.
Ég tel rétt að hnekkja á því að hinn látni leiðtogi kaþólskra hefur aldrei heitið Frans. Hann hét áður nafni sem ég þekki ekki en það gáfu foreldrar hans honum þegar þeim fæddist hann í Argentínu. Þegar hann varð síðar páfi tók hans sér nafnið Francis og var fyrsti páfinn með því nafni. Enginn kaþólskur páfi hefur heitið Frans.
Nöfn fólks á ekki að þýða milli tungumála. Slíkt er óvirðing og getur jafnvel falið í sér niðurlægingu. Eða hverjum datt í hug að Ólafur Ragnar Sigurðsson vísaði í ræðu og riti til eiginkonu sinnar sem Dóróteu?
Hvað varðar starfsheitið Pope, þá má fallast á að embætti forseta Íslands hafi orðið á í messunni. Starfsheiti manna er eðlilegt og hefðbundið að þýða milli tungumála.
En hve þungt vega þessi mistök forseta og hve mikið skaða þau hagsmuni íslensks samfélags. Þau urðu okkur sannarlega ekki til vansa á alþjóðavettvangi - því að vandfundinn er á maður erlendis sem skilur íslensku. Og innanlands kippa fæstir sér upp við þetta. Íslendingar hafa jú sjálfir sífellt losaralegri tök á tungumálinu, óháð menntunarstigi og stöðu að öðru leyti.
En segjum sem svo þótt hefði nauðsynlegt að bregðast við yfirsjón forseta. Hver hefði þá verið heppilegasta leiðin til þess, miðað við lágmörkun neikvæðra afleiðinga og hámörkun gagnsemi? Valið stendur í raun milli tveggja megin aðferða sem gæti hugsast að útfæra á ýmsa vegu. Annars vegar hefði mátt víkja að forseta vinsamlegri ábendingu í tölvupósti eða í sendibréfi en hins vegar að koma afstöðu sinni á framfæri með háværri, opinberri fordæmingu. Ég er ekki sannfærður um ágæti síðari aðferðarinnar, hvað varðar samfélagslegan ávinning eða orðspor þess sem henni beitir.
Ef til vill er best að flá kött af varfærni, af virðingu og í kyrrþey og að við kirkjugöngur er flas trúlega sjaldan til fagnaðar. Það mat um það tilheyrir hverjum manni þegar og ef hann stendur frammi fyrir því að láta til sín taka.