KA/Þór úr leik í bikarnum

FH stúlkur eru komnar í úrslitaleik Eimskipsbikarkeppninnar í handbolta eftir öruggan sigur á kornungu liði KA/Þórs í KA-heimilinu í dag 36-21. KA/Þór hékk í FH framan af leik en þegar gestirnir tóku öflugustu skyttu heimamanna Örnu Valgerði Erlingsdóttur úr umferð fljótlega í fyrri hálfleik fór að draga í sundur með liðunum.

Augljóst var að FH-liðið væri númeri of stórt fyrir norðanstúlkur sem þó lögðu sig allar fram og verða ekki sakaðar um andleysi. Staðan í hálfleik var 23-11 FH-ingum í vil. Seinni hálfleikur var lengst um jafn þrátt fyrir að Arna Valgerður væri tekin úr umferð og hélst forysta FH alltaf á bilinu 10-13 mörk. Það var ekki fyrr en í lokin að gestirnir náðu að auka forystu sína lítillega og má þar aðallega kenna um þreytu í liði KA/Þórs sem eflaust eru ekki vanar þeim hraða sem gestirnir spiluðu á.

Í liði KA/Þórs býr margt og verður gaman að fylgjast með þessum stúlkum þegar fram líða stundir. Leikmenn eins og Unnur Ómarsdóttur, Arna Valgerður Erlingsdóttir og Emma Havin Sardarsdóttir sýndu það að þær standast úrvalsdeildar leikmönnum fyllilega snúning í þessum leik og spiluðu vel þrátt fyrir að reynsluleysi þeirra gerði vart við sig á köflum.

Mörk KA/Þórs: Unnur Ómarsdóttir 6, Arna Valgerður Erlingsdóttir 6, Emma H. Sardarsdóttir 5, Lilja Sif Þórisdóttir 2, Arndís Heimisdóttir 1 og Þórdís Sigurbjörnsdóttir 1.

Nýjast