KA/Þór skellti HK á heimavelli

Ásdís Sigurðardóttir skoraði sex mörk í dag fyrir KA/Þór.
Ásdís Sigurðardóttir skoraði sex mörk í dag fyrir KA/Þór.

KA/Þór lagði HK nokkuð óvænt að velli, 23-22, er liðin áttust við í KA-heimilinu í dag í N1-deild kvenna í handknattleik. Norðanstúlkur höfðu yfirhöndina nánast allan leikinn og var sigurinn verðskuldaður. Frida Petersen átti afbragðsleik í marki KA/Þórs og átti stóran þátt í sigrinum. Hún varði sautján skot, þar af tólf í fyrri hálfleik, og nokkur þeirra á afar mikilvægum augnablikum. Þetta er aðeins annar sigur KA/Þórs á leiktíðinni sem lyftir sér upp af botninum í áttunda sæti deildarinnar með fjögur stig. HK hefur áfram tólf stig í þriðja sæti.


Norðanstúlkur byrjuðu leikinn af krafti og komust í 4-0. HK skoraði ekki mark fyrstu sex mínúturnar en hin færeyska Frida Petersen í marki KA/Þórs var í banastuði og varði átta skot á fyrsta korterinu. HK efldist þegar leið á fyrri hálfleikinn og minnkaði muninn í tvö mörk, 6-4, en KA/Þór náði fjögurra marka forystu á ný, 8-4, um miðjan fyrri hálfleik. Næstu fimm mínútur voru markalausar og sóknarleikur beggja liða arfaslakur. HK minnkaði muninn í tvö mörk á ný, 9-7, þegar tvær og hálf mínúta voru til leikhlés. KA/Þór jók forskotið í fjögur mörk á ný, 11-7, en Brynja Magnúsdóttir minnkaði muninn fyrir HK niður þrjú mörk með skoti beint úr aukakasti eftir leiktíminn var runninn út. Staðan 11-8 í hálfleik.

HK byrjaði seinni hálfleikinn betur og skoraði fyrstu tvö mörkin og minnkaði muninn í eitt mark í fyrsta skiptið í leiknum, 11-10. Þá komu þrjú mörk í röð hjá KA/Þór sem náði fjögurra marka forystu á ný, 14-10. HK jafnaði leikinn í 17-17 á 48. mínútu og var þá í fyrsta sinn jafnt í tölum. Þegar þrjár mínútur voru eftir var staðan enn jöfn, 21-21. Kolbrá Ingólfsdóttir kom heimastúlkum yfir, 22-21, þegar ein mínúta var eftir. HK lagði af stað í sókn og Brynja Magnúsdóttir tók skot en Frida í marki KA/Þórs greip boltann og KA/Þór skoraði í kjölfarið 23 markið sitt í leiknum. HK náði minnka muninn í eitt mark þegar tólf sekúndur voru til leiksloka en lengra komust þær ekki og KA/Þór fagnaði óvæntum og dýrmætum sigri í botnbaráttunni.

Mörk KA/Þórs
: Kolbrún Gígja Einarsdóttir 6, Ásdís Sigurðardóttir 6, Martha Hermannsdóttir 5 (1), Katrín Vilhjálmsdóttir 3 , Kolbrá Ingólfsdóttir 2.
Varin skot: Frida Petersen 17 (1).

Mörk HK: Brynja Magnúsdóttir 6 (1), Heiðrún Björk Helgadóttir 4, Elva Björg Arnarsdóttir 3, Elísa Ósk Viðarsdóttir 1, Arna Björk Almarsdóttir 2,  Sigríður Hauksdóttir 2, Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir 1, Elín Anna Baldursdóttir 1, Jóna Sigríður Halldórsdóttir 2.
Varin skot: Ólöf Kolbrún Ragnarsdóttir 13.

Nýjast