Karlmaður lést í umferðarslysi á Ólafsfjarðarvegi

Karlmaður á sjötugsaldri lést í umferðarslysi á Ólafsfjarðarvegi laust fyrir kl. 15 í dag. Lögreglan á Akureyri fékk tilkynningu um alvarlegt umferðarslys við bæinn Krossa en þar hafði orðið árekstur tveggja bifreiða sem komu úr gagnstæðum áttum.   

Lögreglu- og sjúkraflutningamenn  frá Akureyri og Dalvík fóru þegar á vettvang. Ökumenn beggja bifreiðanna, sem voru einir í bifreiðum sínum, voru fluttir á Sjúkrahús Akureyrar til aðhlynningar þar sem ökumaður annarrar þeirrar, karlmaður á sjötugsaldri, var úrskurðaður látinn.  Hinn ökumaðurinn, sem var kona á sjötugsaldri, er ekki talin alvarlega slösuð. Báðar bifreiðarnar eru ónýtar eftir slysið. Rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri vinnur að rannsókn slyssins í samvinnu við Rannsóknarnefnd umferðarslysa.  Nafn hins látna verður ekki gefið upp að svo stöddu, segir í tilkynningu lögreglunnar á Akureyri.

Nýjast