Karlmaður handtekinn fyrir þjófnað og fíkniefnamisferli
Lögreglan á Akureyri handtók í vikunni karlmann á þrítugsaldri, sem játaði við yfirheyrslu, að hafa farið inn í margar
ólæstar bifreiðar í Glerárhverfi og stolið úr þeim ýmsum smáhlutum, svo sem verkfærum, mótorhjólahjálmi og
smápeningum. Í einni bifreiðinni komst þjófurinn yfir húslykla sem hann notaði til að fara inn í hús þar sem hann stal tösku og
veskjum með gjaldeyri að andvirði rúmlega 100.000 krónur.
Maðurinn gat skilað megninu af þýfinu en við handtöku fannst lítilræði af kannabisefnum. Í framhaldinu var gerð húsleit á heimili hans þar sem fundust níu kannabisplöntur og nítján kannabisgræðlingar sem hald var lagt ásamt tveimur ljósalömpum. Á heimili hans voru tveir einstaklingar sem báðir höfðu undir höndum lítilræði af kannabisefni og amfetamíni sem einnig var haldlagt. Lögreglan vill minna fólk á að gæta vel að því ganga frá bifreiðum sínum læstum þannig að óviðkomandi eigi ekki greiða leið inn í þær.