Þau hafa haldið sameiginlegar listsýningar og tekið þátt í margs konar samsýningum. Einnig hafa þau haldið fyrirlestra um samvinnu sína í tengslum við sýningarnar og á ráðstefnu um menntamál. Karl er alvarlega mál- og hreyfihamlaður ungur maður sem býr yfir góðum skilningi. Þrátt fyrir fötlun sína tekst Kalla að koma til skila þeirri næmu listrænu tilfinningu sem býr innra með honum. Hann útskrifaðist af myndlistabraut Verkmenntaskólans á Akureyri vorið 2007 og hefur ekki slegið slöku við í myndlistinni. Vorið 2008 tók hann þátt í listahátiðinni List án Landamæra með sýningunni Snúist í hringi, sem var í Ketilhúsinu á Akureyri.