Kappróðrabátur fauk út á sjó í hvassviðrinu
Glöggur vegfarandi, sem oft á leið um Leiruveginn, hafði samband við Vikudag, þar sem hann hafði áhyggjur á kappróðrabáti Nökkva, siglingaklúbbsins á Akureyri, sem marar í hálfu kafi í flæðarmálinu. Rúnar Þór Björnsson formaður Nökkva segir að báturinn hafi skemmst lítillega í óveðrinu um daginn en stefnt sé að því að taka bátinn á land fyrir helgi, laga skemmdina og koma honum í geymslu.
Báturinn fauk út á sjó um daginn og þá kom gat á hann. Áður höfðu tveir kappróðrabátar sem voru á sjó, slitnað upp af legunni í norðan hvassviðriðinu á dögunum. Við náðum þeim upp í fjöruna við Leirunesti, sagði Rúnar en björgunarsveitin aðstoðaði við ná bátunum á þurrt. Þegar svo sunnanrokið kom í kjölfarið fauk annar báturinn út á sjó. Rúnar segir að ekki hafi verið hægt að eiga við bátinn flæðamálinu vegna veðurs en að reynt verði að ná honum á þurrt fyrir helgi. Báturinn liggi á sandbotni og að ekki sé hætta á að hann verði fyrir frekari skemmdum. Báturinn fauk tvívegis út á sjó í hvassviðrinu á dögunum. Það er mjög erfitt að passa upp á þessa báta, þeir eru svo langir og því erfitt að eiga við þá. Sjómannafélag Eyjafjarðar gaf Nökkva kappróðrabátana fjóra fyrir nokkrum árum og eru hinir þrír bátarnir geymdir á bak við Iðnaðarsafnið.