„Kannski læt ég drauminn rætast“
Dóra Ármannsdóttir hefur starfað við Framhaldsskólann á Húsavík (FSH) frá árinu 1992. Framan af kenndi hún íslensku og bókmenntir en haustið 2012 skipti hún um hlutverk og tók við embætti skólameistara FSH. Dóra hefur nú beðist lausnar frá embætti og lætur af störfum í sumar. Hún lítur yfir farinn veg og segir frá ferlinum, áhugamálunum og hvað tekur við í hennar lífi.
Dóra tekur á móti blaðamanni Skarps á heimili sínu með rjúkandi ferskt kaffi og býður honum sæti í betri stofunni. Gunnlaugur Stefánsson maður hennar og lífsförunautur situr inn á skrifstofu og vinnur í bókhaldi á meðan.
Dóra Ármannsdóttir er glæsileg kona og hefur alltaf lagt mikla ástríðu í það sem hún tekur sér fyrir hendur, hún var alla tíð vinsæll kennari og eftir að hún tók við embætti skólameistara hefur hún verið vel liðin af samstarfsfólki sínu. Hún á að baki 24 ár við Framhaldsskólann á Húsavík og hefur séð tímana tvenna. En hvað varð til þess að hana langaði að verða kennari?
„Ég hef svolítið hugsað þetta og oft verið spurð, einlæga svarið er að ég hef verið svo heppin að vera með góða kennara alveg frá barnaskóla og upp úr,“ segir Dóra og hugsar sig um stutta stund áður en hún heldur áfram: „Ég man eftir því þegar ég var í Gagganum á Húsavík [þar sem FSH er nú til húsa] á sínum tíma og ég er ekkert að grínast með þetta, það var búið að að hringja bjöllunni, ég sat við gluggann við listaverkið á ganginum og ég sé kennarana labba inn með námsbækurnar, svolítið spekingslegir sumir. Ég meira að segja man hvaða kennarar þetta voru sem gengu þarna inn í stofu; Kristrún Karls, Sigurjón Jóhannesson og fleiri. Þá hugsa ég með mér að það sé örugglega ekkert galið að vera kennari. Ég var samt alltaf viss um að ég myndi kenna eldri nemendum, mér fannst ég ekki vera barnakennari í mér. Þetta var svona fyrsta vísbendingin um hvað ég vildi verða.” Viðtalið í heild má nálgast í prentútgáfu Skarps. /epe.
- Skarpur, 30. júní.