Hymnodia var að gefa út plötu, sem hefur fengið mjög góða dóma en útgáfutónleikar voru haldnir í Listasafninu á Akureyri nýlega. Eyþór Ingi stofnaði kammerkórinn Hymnodiu fyrir fimm árum og þá voru kórfélagar átta. Í dag skipa 16 söngvarar kórinn og hefur sá fjöldi verið sl. þrjú ár, að sögn Eyþórs. Kórfélagar koma frá Akureyri og næsta nágrenni en einn þeirra er búsettur í Mývatnssveit. "Kórinn var eingöngu stofnaður til þess að flytja tónlist á tónleikum. Við höfum haldið tónleika um allt land og annað hvort erum við að syngja mjög gamla tónlist, eða alveg nýja. Þetta hefur gengið mjög vel í gegnum tíðina og við fengið mjög góða dóma," sagði Eyþór.
Á plötunni sem Hymnodia var að gefa út, eru eingöngu flutt kórverk eftir íslenskar konur. Á plötunni eru 17 lög, þau elstu eru frá því fyrir miðja síðustu öld en yngstu verkin eru nokkurra ára gömul. "Okkar var boðið að syngja á Myrkum músikdögum árin 2006 og svo aftur 2007 og vildum þá syngja íslenska tónlist. Við fórum að leita að lögum sem höfðu lítið heyrst og þegar við vorum kominn með bunkann í hendur, kom í ljós að flest lögin voru eftir íslenkar konur. Við ákváðum því að fara alla leið og setja saman efnisskrá með lögum eftir konur. Við lögðum þetta svo til hliðar í nokkra mánuði en tókum svo þá ákvörðun, eftir mikla hvatningu, að gefa þetta út. Verkefnið hefur vaxið og ætli við verðum ekki að syngja verk eftir íslenskar konur næstu árin. Okkur var m.a. boðið til Sviss næsta haust, til að flytja þessa efnisskrá og þá erum við að vinna í því að flytja verk eftir fleiri konur, þannig að þetta heldur áfram."
Eyþór hefur stjórnað mörgum kórum í gegnum tíðina og stjórnar nú tveimur kórum til viðbótar, Kór Akureyrarkirkju og Stúlknakór Akureyrarkirkju. Hann segir að starfið í Hymnodiu sé frábrugðið öðru kórastarfi. "Við reynum að vera svolítið öðruvísi og það skiptir miklu máli að það sé góður andi í hópnum. Það er meira agaleysi á æfingum og mikið lagt upp úr því að fólk hafi gaman af því sem erum að gera. Engu að síður er mikil pressa á söngfólkinu, enda kórinn ekki mjög fjölmennur," sagði Eyþór.