Kammerkórinn Hymnodia með miðnæturtónleika

Kammerkórinn Hymnodia heldur miðnæturtónleika í Akureyrarkirkju á föstudaginn langa kl. 22.30. Á efnisskránni er undurfalleg tónlist sem hæfir tilefni dagsins, meðal annars hið þekkta Stabat Mater eftir Giovanni Battista Pergolesi (1710-1736) sem kvenraddir Hymnodiu flytja ásamt strengjakvartett og orgeli.  

Þetta verk var einhver mesti smellur síns tíma og líklega hefur ekkert tónverk komið oftar út á prenti á átjándu öldinni en Stabat Mater eftir Pergolesi. Á tónleikunum á föstudag flytur Hymnodia líka kaflan Ad manus úr verkinu Membra Jesu nostri eftir annan barokkmeistara, Dietrich Buxtehude. Félagar úr kórnum sjá um einsöngskafla, dúó og tríó úr báðum þessum verkum. Þá verða á tónleikunum flutt öll erindin í sálmi Davíðs Stefánssonar, Á föstudaginn langa, lag Guðrúnar Böðvarsdóttur, og hljóðfæraleikararnir flytja hina ástsælu Aríu á G-streng eftir Johann Sebastian Bach. Hljóðfæraleikarar á tónleikunum eru Lára Sóley Jóhannsdóttir konsertmeistari, Marcin Lazarz á fiðlu, Eydís S. Úlfarsdóttir á víólu, Ásdís Arnardóttir á selló og Sigrún Þórsteinsdóttir á orgel. Eyþór Ingi Jónsson stjórnar.

Nýjast