Kallar eftir betri yfirsýn yfir ráðningar hjá Norðurþingi

Stjórn E-listans í Norðurþingi fundaði í gær og sendi í kjölfarið frá sér bókun þar sem áhyggjum er lýst yfir verkstjórn sveitarstjóra og störfum meirihlutans. Þetta er í annað sinn sem Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri fær slíka vantraustsyfirlýsingu. Kristján Þór er einnig er oddviti Sjálfstæðisflokks en fyrir helgi var það V-listinn,  samstarfsflokkur í meirihluta sem lét bóka að verkstjórn sveitarstjórans væri ábótavant.

Í bókuninni segir að  stjórn E-lista harmi þá stöðu sem blasi við í Norðurþingi sérstaklega þegar kemur að stjórnun, fjárhag og starfsmannahaldi. „Ljóst er að verkstjórn sveitarstjóra er stórlega ábótavant undanfarin ár; sem og skilningur og áhugi á hjólum atvinnulífsins,“ segir í bókuninni sem Vikublaðið hefur undir höndum. Þá er kallað eftir róttækum breytingum til þess að sveitarfélagið nái aftur fyrri styrk.

Finnst mál hafa týnst í kerfinu

 Hafrún Olgeirsdóttir, fulltrúi E-listans í sveitarstjórn sagði í samtali við Vikublaðið að henni þyki ýmislegt betur mátt fara á þessu kjörtímabili, bæði í verkum sveitarstjóra og meirihlutans í heild. „Mér finnst málum ekki verið sinnt alveg nógu vel. Finnst þau hafa týnst svolítið í kerfinu. Við í minnihlutanum höfum fengið samþykktar tillögur oftar en einu sinni á sveitarstjórnarfundum og svo verður einhvern vegin ekkert um þær í kerfinu. Þannig að það hefur verið lítil framvinda mála. Mér finnst stundum vanta upp á upplýsingaflæði. Eins og kemur reyndar fram í þessari bókun frá E-listanum, þá finnst mér líka vanta upp á betri verkstjórn en það á ekki síður við um formenn og fulltrúa ráðanna eins og sveitarstjóra,“ segir Hafrún.

Spurð hvaða róttæku breytingum verið sé að kalla eftir segir Hafrún að það vanti skýrari stefnu. „Frá mínum bæjardyrum séð, finnst mér vanta skýrari stefnu og betri yfirsýn yfir ráðningar hjá sveitarfélaginu.“

Þá segist Hafrún liggja undir feldi varðandi framboð í næstu sveitarstjórnarkosningum sem fara fram 14. maí nk. „Ég er ekki búin að taka ákvörðun en þetta er allt í skoðun og mun skýrast á næstu vikum sennilega,“ segir hún að lokum.

Hér að neðan má sjá bókun stjórnar E-listans í heild sinni, en rétt er að taka það fram að bókunin er frá nýskipaðri stjórn E-listans en ekki fulltrúum sem sitja á listanum:

„Stjórn E-listans harmar  þá stöðu sem blasir við í sveitarfélaginu Norðurþingi og lítur einkum að stjórnun sveitarfélagsins, fjárhag þess og starfsmannahaldi.  Ljóst er að verkstjórn sveitarstjóra er stórlega ábótavant undanfarin ár; sem og skilningur og áhugi á hjólum atvinnulífsins.

Heilbrigt og vaxandi  atvinnulíf er grunnforsenda hvers samfélags. Án þess verður ekkert.

Ekki verður lengur við unað og lífsnauðsynlegt fyrir íbúa og fyrirtæki Norðurþings að meirihluti sveitarstjórnar axli þá ábyrgð sem farið hefur forgörðum undanfarin misseri. Róttækra breytinga er þörf; til þess að sveitarfélagið Norðurþing nái aftur fyrri styrk og blómstri sem aldrei fyrr.“


Nýjast