Einn af starfsmönnum fjölmiðilsins var í öngum sínum yfir morgunkaffinu. Ástæðan ku vera sú að nýlega tók þessi umræddi starfsmaður það ábyrgðarfulla hlutverk að sér; að koma við í einni af verslunum bæjarins og kaupa undanrennu fyrir aldraðan föður sinn. Og eins og allir vita er nýlenduverslanaflóran æði fjölbreytt á Húsavík um þessar mundir.
Þar sem starfsmaðurinn er lítt gefinn fyrir ys, þys og almennt öngþveiti valdi hann að fara fyrst í Krambúðina. Ekki fann hann undanrennuna þar sem hann taldi að hún ætti að vera og vatt sér því að afgreiðslustarfsmanni og bað um aðstoð. Þá var honum tjáð að enginn undanrenna væri til, hún væri hreinlega uppseld.
Lúpulegur hafði starfsmaður Skarps sig á brott og þótti þetta undarlegt í meira lagi. Hann hafði síðar á orði að það kæmi varla nokkurn tíma fyrir að sæist til viðskiptavina leggja leið sína inn í þessa ágætu verslun – hvernig gæti nokkuð orðið uppselt þar?
Hann lét sig hafa það að stökkva inn í Netto, enda þótt þar séu jafnan heljarinnar biðraðir við kassana og almennt öngþveiti. Í Netto var heldur enga undanrennu að finna – þar var hún einnig uppseld. Hann fékk þær upplýsingar að ástæðan fyrir undanrennuskortinum væri helst sú að sveifla í sölu á undanrennu er mjög mikil á Húsavík. Þannig hefur það oft og iðulega komið fyrir að henda þurfi miklu magni af þessum guðaveigum. Þar sem mikil vakning hefur orðið í þjóðfélaginu um matarsóun hefur verið brugðist við þessum afföllum með því að panta minna inn af vörunni. En þá fyrirvaralaust verður sprenging í sölunni og engar vísindalegar rannsóknir liggja fyrir um hvað orsaki þessar sveiflur.
Starfsmanni Skarps tókst að lokum að verða sér úti um undanrennu fyrir föður sinn suður í Olís en það var jafnframt síðasta fernan í versluninni og væntanlega í öllum bænum. Var honum talsvert létt en þó gat hann ekki hætt að hugsa um dularfullar undanrennusölusveiflurnar og tók sem sé málið upp á kaffistofu Skarps í morgunsárið. Niðurstaða þeirra vangaveltna varð sú að Bakkus væri líklega sökudólgurinn í þessu sem mörgu öðru.
Allir vita auðvitað að fátt er betra en undanrenna til að losna við eða milda erfiða þynku. Nú er einmitt tími þorrablótanna og bæjarbúar og nærsveitungar því mikið mun tíðar þunnir en gengur og gerist.
Þá vita verslunaraðilar á Húsavík það, að panta inn aukabyrðir af undanrennu hvenær sem þorrablót eða aðrar svallveislur eru auglýstar í bænum.