Kaffihús rís í Lystigarðinum á Akureyri

Skrifað undir verksamninginn. Mynd: Þorgeir Baldursson.
Skrifað undir verksamninginn. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Í dag var undirritaður verksamningur um byggingu kaffihúss í Lystigarðinum á Akureyri. Fasteignir Akureyrarbæjar sömdu við BB byggingar ehf. um að reisa húsið og er áætlað að verklok verði í maí á næsta ári. Húsið verður 180 fm. Þar verður veitingasala og einnig seldir minjagripir. Samninginn undirrituðu Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri, fyrir hönd Akureyrarbæjar og Sigurður Björgvin Björnsson fyrir hönd BB bygginga.

Með þeim á meðfylgjandi mynd eru Björgvin Steindórsson, forstöðumaður Lystigarðs Akureyrar, og Guðríður Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri Fasteigna Akureyrarbæjar. Að neðan gefur að líta teikningu af kaffihúsinu sem rísa mun í Lystigarðinum. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Alls bárust þrjú tilboð í byggingu kaffihússins og fullnaðarfrágang á húsi og lóð og voru þau öll yfir kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á 59,4 milljónir króna. Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar samþykkti að hafna öllum tilboðunum en taka upp viðræður við hlutaðeigandi aðila. Fyrirtækið BB Byggingar átta lægsta tilboðið í útboðinu, rúmar 69,7  milljónir króna.  

Nýjast