Kærunefnd útboðsmála hafnaði kröfum á hendur Akureyrarbæ

Kærunefnd útboðsmála hefur hafnað kröfum Hamarsfells ehf. og Adarkris UAB, á hendur Akureyrarbæ. Fyrirtækin kærðu ákvörðun Akureyrarbæjar um val á tilboði í útboðinu "Naustaskóli, uppsteypa og frágangur utanhúss." Kærunefnd útboðsmála hafnaði kröfu kærenda um að felld verði út gildi sú ákvörðun Akureyrarbæjar að taka tilboði SS Byggis í útboðinu í Naustaskóla.  

Þá er það álit kærunefndar að Akureyrarbær sé ekki skaðabótaskyldur gagnvart kærendum vegna þátttöku í útboðinu. Loks var kröfu Hamarsfells og Adarkris um að bærinn greiddi málskostnað, hafnað. Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar samþykkti á fundi sínum í apríl sl. að hafna tilboði Hamarsfells ehf./Adakris í 2. áfanga Naustaskóla, á þeim forsendum að fyrirtækin uppfylltu ekki öll skilyrði útboðslýsingar. Stjórnin samþykkti jafnframt að ganga til samninga við SS Byggi ehf. á Akureyri á grundvelli tilboðs þeirra og þar sem fyrirtækið uppfyllti öll skilyrði útboðslýsingar. Framkvæmdir við Naustaskóla eru komnar í fullan gang en tilboð SS Byggis hljóðaði upp á rúmar 450 milljónir króna.

Nýjast